Innlent

Vill gera smokkinn sexí aftur

Lovísa Arnardóttir skrifar
Kolbrún Hrund segir það mikið áhyggjuefni að ungt fólk noti ekki smokkinn þó það eigi hann til.
Kolbrún Hrund segir það mikið áhyggjuefni að ungt fólk noti ekki smokkinn þó það eigi hann til. Mynd/Ragnar Visage og Vísir/Getty

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir verkefnastýra Jafnréttisskólans í Reykjavík segir áríðandi að gera smokka sexí aftur. Auk þess þurfi að tryggja betra aðgengi að þeim. Í gær var greint frá því að fjölgun hefði orðið í greiningum kynsjúkdóma. Sóttvarnalæknir segir það mögulega tengjast minni notkun smokksins og breyttri kynhegðun ungs fólks.

„Við höfum hjá Reykjavíkurborg, í tengslum við Viku 6, þá bæði bjóðum við upp á fræðslu um af hverju smokkurinn er mikilvægur en líka hvernig á að nota smokkinn. Við sendum öllum nemendum í 10. Bekk alltaf smokk í Viku 6,“ segir Kolbrún Hrund.

Auk þess geti nemendur í grunnskóla alltaf nálgast smokka ókeypis í félagsmiðstöðinni sinni.

Geyma smokkinn í vasanum

Kolbrún segir samt miklu færri stunda kynlíf í 10. bekk en til dæmis í framhaldsskóla. Vandamálið sé að þar sé ekki fræðsla og lítið aðgengi að smokkum.

„Í rauninni eru krakkarnir svolítið að stíga sín fyrstu skref kynferðislega með öðrum á framhaldsskóla aldri og þar er lítið sem grípur þau. Þar vantar alveg kynfræðsluna og vantar aðgengi að smokkum. Það sem við höfum haft áhyggjur af er að í samtölum við unga fólkið okkar sem er farið að hafa samfarir eða stunda kynlíf með öðrum er að þó svo að þau séu með smokk eru þau ekki að nota hann. Þau eru stundum að segja okkur frá því að hann sé í vasanum en sé ekki tekinn upp þó þau séu að fara að stunda samfarir eða einhvers konar kynmök.“

Árið 1987 var farið í smokkaátak vegna mikillar fjölgunar HIV smita. Ýmislegt hefur verið reynt síðan til að gera smokkinn vinsælan. Að neðan í fréttinni er myndband úr herferð Ástráðs - Kynfræðuslufélags læknanema frá því í fyrra.Mynd/Landlæknisembættið

Hún segir þetta verulegt áhyggjuefni.

„Það er þessi mýta að hann sé ekki sexí, að hann sé óþægilegur og að kynlífið sé ekki eins gott fyrir vikið. Ég held að það sé klárlega kominn tími á svona smokkaherferð eins og var hérna um árið. Samfélagslega herferð þar sem við tölum smokkinn upp.“

Hún segir nauðsynlegt að tryggja aðgengi og að þau noti hann, en líka að þau vilji nota hann.

„Það er miklu, miklu betra að nota smokk en að nota kynsjúkdóm, til dæmis.“

Dýrt að fá kynsjúkdóm

Pakki með tíu smokkum kostar allt frá 600 krónum í lágvöruverslun en um þúsund til 1.500 í apóteki. Smokkar eru fáanlegir í öllum helstu matvöruverslunum, apótekum og víðar.

„Ef þú átt peninginn ekki til þá auðvitað er þetta dýrt og það hafa ekki allir tök á því. En það er dýrt að fá kynsjúkdóm þannig kannski ættu ráðuneytin að taka sig saman og taka af kostnað af smokkum þannig þeir séu gjaldfrjálsir fyrir fólk á sama tíma og við förum að festa kynfræðsluna betur í sessi.“

Hún segir það skjóta skökku við að grunnskólanemendur hafi greitt aðgengi að smokkum en ekki ungt fólk á framhaldsskóla- og háskólaaldri.

Þörf á smokkaátaki

Hún segir að smokkar séu aðgengilegir gjaldfrjálsir til dæmis í Blush en að þeir ættu að vera aðgengilegir og gjaldfrjálsir víðar fyrir ungt fólk. Þá eigi það heldur ekki að vera tabú að nálgast þá.

„Þetta er bara eitthvað sem þau ættu ekki að þurfa að hafa ótrúlega mikið fyrir að verða sér úti um. Þetta ætti bara að vera aðgengilegt finnst mér. Svo er það bara að hvetja þau til þess að nota smokk og brjóta þessa mýtu að smokkar séu ekki sexí. Ég held að það sé löngu kominn tími á að við förum í smokkaátak á Íslandi. Við höfum áhyggjur af þessum tölum um kynsjúkdómasmit og við getum gert betur og við ættum að gera það.“

Hún segir þetta hafa verið gert að markmiði hjá Reykjavíkurborg að gera smokka aðgengilega í félagsmiðstöðvum. Það hafi verið stórt og mikilvægt skref. Á sama tíma hafi tíðavörur einnig verið gerðar aðgengilegar.

„Þetta eru hlutir sem skipta máli og ég skil ekki af hverju ríki og ráðuneytin gera ekki það sama fyrir framhaldsskólanemendur því það eru þau sem eru að stíga sin fyrstu skref kynferðislega miklu frekar.“


Tengdar fréttir

Fólk geti verið með fleiri en einn kynsjúkdóm

Mikil aukning hefur orðið á greiningum kynsjúkdómanna lekanda og sárasóttar hérlendis og ekkert dregið úr tíðni klamýdíu. Sóttvarnalæknir segir áríðandi að fólk fari í skoðun og noti viðunandi varnir. Afleiðingar ógreindra sjúkdóma geti verið alvarlegar. 

Mikil fjölgun í greiningum á sára­sótt og lekanda

Mikil aukning hefur orðið á greiningum kynsjúkdómanna lekanda og sárasóttar hérlendis og ekkert dregið úr tíðni klamydíu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu ársskýrslu sóttvarnalæknis fyrir árið 2023. Þar segir að ráðast þurfi í frekari greiningu á hugsanlegum orsökum aukningar lekanda og sárasóttar til að efla forvarnir á markvissan hátt. Sýkingarnar geti haft alvarlegar langtíma afleiðingar.

Átak til að koma í veg fyrir annan faraldur eftir Covid-19

Smokkurinn datt á einhverjum tímapunkti úr tísku hjá íslenskum karlmönnum að sögn læknanema, sem blása nú til átaks til að vekja athygli á getnaðarvörninni. Hugsunin er að koma í veg fyrir að sóttvarnalæknis bíði að kljást við annan faraldur að loknum kórónuveirufaraldrinum.

Vill að smokkum verði dreift til grunnskólabarna

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir aukinn fjölda sárasóttartilfella hér á landi mega rekja til þess að færri noti nú smokk við samfarir heldur en áður fyrr.

Ekki í tísku að nota smokkinn þótt verð hafi lækkað

"Á síðustu tveimur árum hefur orðið veruleg verðlækkun á smokkum. Virðisaukaskatturinn hefur lækkað og við höfum líka lækkað verðið. Við hefðum því viljað sjá aukna sölu,“ segir Halldór Jónsson sem flytur inn Durex smokka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×