Sport

Ís­lendingar byrja vel á heims­meistara­móti öldunga í skák

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
WhatsApp Image 2024-07-04 at 20.50.22_b2a5d013
Skáksamband Íslands

Heimsmeistaramót landsliða öldunga í skák fer fram þessa dagana í Kraká í Póllandi og lið Íslands er í öðru sæti með sjö stig af átta mögulegum eftir fjórar umferðir af níu. Í dag fer fram viðureign íslenska liðsins og þess ítalska sem leiðir á mótinu með átta stig af átta mögulegum.

Íslenska liðið tefldi mikilvæga viðureign í gær við sterkt lið Englendinga. Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, segir viðureignin við Ítalina, sem stendur yfir í þessum skrifuðu orðum, ganga vel og Íslendingana vera í góðum stöðum.

Lið Íslands skipa þeir Helgi Ólafsson, Jóhann Hjartarson, Margeir Pétursson, Jón L. Árnason og Þröstur Þórhallsson. Í þeim hópi eru stórmeistarar, fyrrverandi heimsmeistarar í unglingaflokki og goðsagnir.

Skáksamband Íslands

Jafnteflið við Englendingana lauk 2-2. Þröstur Þórhallsson vann góðan sigur á stórmeistaranum Keith Arkell á fjórða borði en Jóhann Hjartarson tapaði fyrir langsterkasta keppenda mótsins, Michael Adams, á fyrsta borði. Margeir Pétursson og Jón L. Árnason gerðu jafntefli. Minnstu munaði að Jón L. ynni sína skák, að sögn Gunnars.

Íslenskt lið hefur efst náð þriðja sætinu á öldungaheimsmeistaramóti landsliða en Gunnar hefur trú á að sínir menn gætu slegið það met.

„Þetta er gullaldarliðið. Þetta lið náði fimmta og sjötta sæti á Ólympíumótinu í skák í gamla daga. Þetta eru alvöru skákmenn,“ segir hann í samtali við fréttastofu.

Ef Íslendingunum tekst að sigra Ítalina taka þeir fram úr þeim og ljúka fimmtu umferð í efsta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×