Loftbelgurinn mun sjást á flugi yfir Suðurlandi í dag og næstu daga. Hann er kominn til landsins frá Þýskalandi í tengslum við flughátíðina Allt sem flýgur sem fram fer á flugvellinum á Hellu um næstu helgi. Fylgjast má með flugi hans á facebook-síðu Flugmálafélags Íslands í beinni útsendingu úr loftbelgnum.
Flugmálafélagið stendur fyrir komu loftbelgsins í samvinnu við Icelandair, bílaleiguna Hertz og Hótel Rangá. Loftbelgurinn kemur frá H2 Ballooning sem þýskir atvinnumenn á sviði loftbelgjaflugs reka með Dominik Haggeney sem aðalflugmann.

Almenningi býðst að bóka sig í flug með loftbelgnum en veður og vindar ráða því hvenær hægt er að fljúga og hvert. Áhugasamir geta skráð sig á facebook-síðu Flugmálafélagsins.
Flughátíðin Allt sem flýgur er árleg hátíð einkaflugmanna en öllum frjálst að mæta og er aðgangur ókeypis. Samkoman nær hápunkti með flugsýningu eftir hádegi á laugardag þar sem karmellukastið þykir sérlega vinsælt meðal krakkanna. Á föstudagskvöld verða lendingarkeppni og listflugsmót.

Samhliða stendur yfir Íslandsmót í flugi. Flugkeppnin hefst í dag, þriðjudag, og stendur fram á fimmtudag, en keppt er í nokkrum mismunandi þrautum.
„Á hátíðinni gefst þér tækifæri á að kynnast fluginu með einstökum hætti. Svæðið er ein samfelld flugsýning frá föstudegi til sunnudags og getur þú skoðað vélarnar, setið við flugbrautina, fylgst með alls konar loftförum á svæðinu leika listir sínar og notið sólarinnar á sama tíma.
Það verða vélar í lofti og fólk á ferli alla helgina. Hápunktur krakkanna er karamellukastið á laugardeginum þar sem sælgæti rignir yfir svæðið og allir safna því sem þeir geta, um kvöldið mæta svo gestir hátíðarinnar á ekta íslenska kvöldvöku í flugskýlinu,” segir á heimasíðu Flugmálafélagsins.
Frétt Stöðvar 2 af loftbelgsflugi yfir Rangárvöllum sumarið 2020 má sjá hér: