„Fangaverðir eru mjög færir í að vinna við krefjandi verkefni eins og þeim sem er lýst. Slæm hegðun kemur reglulega upp en hefur aukist upp á síðkastið. Fangaverðir hafa leyst þessi verkefni vel en eðli máls samkvæmt þarf að fjölga þeim,” segir Páll í stuttu samtali við Vísi.
Mál Mohamed Kourani hefur vakið mikla athygli en Vísir hefur greint frá því að hann hafi reynst fangavörðum á Litla-Hrauni afar erfiður eftir að hann var færður á Litla-Hraun frá fangelsinu á Hólmsheiði.
Heimildir Vísis herma að hann hafi beitt hinum ýmsu bellibrögðum gegn fangavörðum, meðal annars að skvetta á þá þvagi, hrækja á þá og skvetta á þá sjóðandi vatni. Þá hafi hann makað saur á veggi klefa síns.
Eins og áður sagði vill Páll ekki tjá sig um einstaka tilfelli. Hann segir rétt að undirstrika að öll mál er varða hótanir eða ofbeldi í garð starfsfólks sé tilkynnt sérstaklega til lögreglu.
Spurður hvort slíkum tilkynningum hafi farið fjölgandi uppá síðkastið segir Páll:
„Ég er ekki viss en þetta skiptir tugum á ári. Sumar alvarlegar og aðrar innihaldslitlar og allt þar á milli.”