Innlent

Al­var­legt um­ferðar­slys á Holta­vörðu­heiði

Rafn Ágúst Ragnarsson og Jón Ísak Ragnarsson skrifa
Lokað er fyrir umferð í báðar áttir á Holtavörðuheiði, eftir að tveir bílar sem óku úr gagnstæðri átt skullu þar saman á fimmta tímanum í dag.
Lokað er fyrir umferð í báðar áttir á Holtavörðuheiði, eftir að tveir bílar sem óku úr gagnstæðri átt skullu þar saman á fimmta tímanum í dag. Vísir/Vilhelm

Alvarlegt umferðarslys varð á Holtavörðuheiði upp úr klukkan 16 í dag þegar tveir bílar sem komu úr gagnstæðri átt skullu saman og lentu báðir út af veginum. Tveir voru í annarri bifreiðinni og fimm í hinni. Lokað er fyrir umferð í báðar áttir á meðan aðgerðir lögreglu standa yfir. Hjáleið er um Bröttubrekku og Laxárdalsheiði.

Uppfært

Opnað var að nýju fyrir umferð um Holtavörðuheiði klukkan 19:56.

Fréttastofa hefur þetta eftir Birgi Jónassyni, lögreglustjóra á Norðurlandi vestra.

Lögreglan á Norðurlandi vestra vinnur að vettvangsrannsókn en gert er ráð fyrir að vegurinn verði lokaður í einhverjar klukkustundir.

Sex fluttir með þyrlum

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar á vettvang. Sjö manns voru í bílunum tveimur og sex þeirra voru flutt til Reykjavíkur með þyrlunum tveimur. Einn var fluttur með fyrri þyrlunni og fimm með þeirri seinni. Einn var fluttur til Reykjavíkur með bifreið, meiðsl hans voru minniháttar.

Ökumaður annars bílsins sat fastur í bílnum og það þurfti að losa hann út. „Ég held hann hafi verið klipptur út,“ segir Birgir. Hann var fluttur einn með fyrri þyrlunni.

Vegurinn áfram lokaður fram eftir kvöldi

Birgir segir að Holtavörðuheiðin verði lokuð í einhvern tíma í viðbót. „Já bara þangað til vettvangsrannsókn lýkur, og rannsóknarnefnd samgönguslysa þarf líka að fá að rannsaka þetta,“ segir hann.

Vegfarendur eru beðnir um að sýna tillit.

„Eitthvað er af bílum sem eru bara stopp, bílar með aftanítæki, flutningabílar og svona. Það er ekki alveg hlaupið að því að snúa þeim bílum,“ segir Birgir.

Lögreglan biðlar til fólks að sýna biðlund og tillitsemi við svona aðstæður, og vonar að vegurinn verði opnaður eins fljótt og mögulegt er.

Veistu meira um málið? Sendu okkur upplýsingar og myndir á ritstjorn@visir.is.

Uppfært 20:40




Fleiri fréttir

Sjá meira


×