Fótbolti

Banda­ríkin ráku landsliðsþjálfarann og Klopp orðaður við starfið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gregg Berhalter þarf að leita sér að nýrri vinnu.
Gregg Berhalter þarf að leita sér að nýrri vinnu. getty/Bill Barrett

Gregg Berhalter hefur verið sagt upp störfum sem þjálfara bandaríska karlalandsliðsins í fótbolta. Bandaríkin verða því með nýjan mann í brúnni á HM á heimavelli eftir tvö ár.

Bandaríska liðið olli miklum vonbrigðum í Suður-Ameríkukeppninni og var fyrsta heimaliðið í sögu hennar til að komast ekki upp úr riðlakeppninnar. Bandaríkin unnu Bólivíu en töpuðu fyrir Panama og Úrúgvæ.

Berhalter tók við bandaríska landsliðinu 2018 og stýrði því fram yfir HM 2022. Þá var hann settur af vegna rannsóknar á heimilisofbeldi. Berhalter viðurkenndi að hafa sparkað í eiginkonu sína þegar þau voru unglingar. Hann var endurráðinn í fyrra og stýrði Bandaríkjunum í Suður-Ameríkukeppninni. 

Undir stjórn Berhalters unnu Bandaríkin Gullbikarinn 2021. Alls stýrði hann bandaríska liðinu í 72 leikjum; 44 þeirra unnust, þrettán enduðu með jafntefli og fimmtán töpuðust.

Meðal þeirra sem hafa verið orðaðir við starf landsliðsþjálfara Bandaríkjanna er Jürgen Klopp, fyrrverandi knattspyrnustjóri Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×