„Þetta bara verður ekki betra en þetta. Maður er í fótbolta fyrir þessi móment og ég er bara í skýjunum. Ég er bara ofboðslega stolt af liðinu og öllum kringum þetta. Þessi sigur er bara stór fyrir alla þjóðina og skiptir alla landsmenn máli. Það var frábært að finna þennan magnaða stuðning úr stúkunni,“ sagði Sandra María hreykin.
„Þetta er klárlega ein af stærstu stundunum á ferlinum og ég mun rifja þetta kvöld upp með barnabörnunum þegar þar að kemur. Við skorum þrjú mörk á þýska liðið og vorum þéttar. Þær skapa fá færi og við hefðum hæglega getað bætt við fleiri mörkum. Þannig að þessi sigur var klárlega sanngjarn.
Við höfðum trú á því að við gætum unnið. Við höfum spilað við þær oft síðustu ár og mér hefur fundist stígandi í spilamennsku okkar á móti þeim. Af þeim sökum mættum við fullar sjálfstrausts í þennan leik og það sást held ég,“ sagði Sandra um frammistöðu íslenska liðsins.
„Mér fannst við sýna það og sanna í útileiknum í Þýskalandi að við gátum pressað á þær og herjað á ákveðin svæði. Þjálfararnir settu leikinn vel upp og við treystum uppleginu og framkvæmdum það vel.
Ég held að það geti allir ímyndað sér hvernig stemmingin var í klefanum eftir leik. Við erum allar öskrandi af gleði og dansandi. Þetta er svakalega gaman og liðsheildin mögnuð,“ sagði kantmaðurinn um tilfinninguna á þessari gleðistundu.