Fótbolti

Leitaði til Kanada til að finna leik­mann fyrir kvennalið Vals

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kanadíski-ítalski framherjinn Alyssa Cerino spilar næsta vetur með Val í Bónus deild kvenna í körfubolta.
Kanadíski-ítalski framherjinn Alyssa Cerino spilar næsta vetur með Val í Bónus deild kvenna í körfubolta. @bccderthonabasket

Valsmenn hafa samið við nýjan erlendan leikmann fyrir kvennakörfuboltalið félagsins. Leikmaðurinn er kanadíski-ítalski framherjinn Alyssa Cerino.

Valur hafði áður samið við bandaríska leikstjórnandann JuToreyiu Willis. Valsliðið missti frá sér Íslandsmeistaratitilinn í vor en er nú að safna liði.

Alyssa spilaði með Scrivia í A2 deildinni á Ítalíu á síðasta tímabili en liðið vann úrslitakeppnina og fór upp í efstu deild.

Alyssa skilaði 10,0 stigum og 6,3 fráköstum að meðaltali í leik en hún hitti úr 33 prósent þriggja stiga skota sinna og 68 prósent vítanna.

Tímabilið á undan spilaði hún með FIBA Euro Cup liðinu Sportiva frá Portúgal og var þá með 8,5 stig og 7,5 fráköst í leik.

Alyssa er fædd 1997 og hélt upp á 27 ára afmælið á dögunum. Hún er 184 sentímetrar á hæð.

Hún spilaði með Carleton Ravens í háskólaboltanum í Kanada áður en hún fór í atvinnumennsku. Liðið vann tvo meistaratitla meðan hún var í skólanum og hún var einu sinni valin mikilvægasti leikmaðurinn í úrslitunum.

Jamil Abiad, nýr þjálfari Valsliðsins, þekkir vel til Alyssu en hann fylgdist með henni í Kanada:

„Þegar ég fór að leita að leikmönnum í maí hafði ég strax samband við Alyssu. Hún smellpassar við okkar lið og þann bolta sem ég vil að við spilum. Mjög fjölhæfur leikmaður og góð á báðum endum vallarins,“ sagði Jamil Abiad í frétt á miðlum Vals.

JuToreyia Willi er fædd árið 2000 og spilaði á síðasta tímabili í efstu deild í Sviss þar sem hún var valin varnarmaður ársins og í „annað“ úrvalslið ársins. Hún spilaði með Golden Tigers í Tuskegee háskólanum í Alabama þar sem hún skoraði yfir þúsund stig á ferli sínum en aðeins tveimur öðrum leikmönnum hefur tekist það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×