Fótbolti

Val­geir Lund­dal skoraði í skraut­legum Ís­lendinga­slag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valgeir Lunddal Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu.
Valgeir Lunddal Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu. EPA-EFE/PIETER STAM DE JONGE

Valgeir Lunddal Friðriksson var enn á ný á skotskónum með Häcken í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Það dugði þó ekki eftir mjög skrautlegar lokamínútur.

Häcken tapaði 5-3 á dramatískan hátt í Íslendingaslag á móti Elfsborg en þrjú síðustu mörk Elfsborg komu í blálok leiksins. Elfsborg jafnaði metin í 3-3 á 90. mínútu, skoraði fjórða markið á annarri mínútu í uppbótatíma og fimmta markið á fimmtu mínútu uppbótatímans.

Valgeir kom Häcken í 2-1 í uppbótatíma fyrri hálfleiks. Hann var síðan tekinn af velli á 73. mínútu. Þá var Häcken 3-2 yfir. Þetta var þriðja mark Valgeirs á leiktíðinni en þau hafa komið í síðustu fjórum deildarleikjum hans. Markið má sjá hér fyrir neðan.

Eggert Aron Guðmundsson var í byrjunarliði Elfsborg en tekin af velli á 56. mínútu. Andri Fannar Baldursson kom inn á sem varamaður á 62. mínútu.

Tveir íslenskir leikmenn voru í byrjunarliði Norrköping sem tapaði 2-1 fyrir Västerås á útivelli.

Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson byrjuðu báðir. Ísak var tekinn af velli á 76. mínútu en það var staðan 1-1.

Västerås komst í 1-0 á 52. mínútu en Norrköping jafnaði metin aðeins þremur mínútum síðar. Västerås skoraði síðan sigurmarkið á lokamínútu leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×