Fótbolti

„Besta af­mælis­gjöf allra tíma“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lamine Yamal átti fínustu helgi.
Lamine Yamal átti fínustu helgi. Stu Forster/Getty Images

Óhætt er að segja að Lamine Yamal hafi átt góða helgi. Síðastliðinn laugardag fagnaði hann 17 ára afmælinu sínu og í gær, sunnudag, varð hann Evrópumeistari í knattspyrnu og var valinn besti ungi leikmaður EM.

Yamal hefur heldur betur skotist upp á stjörnuhimininn síðastliðna mánuði. Þessi 17 ára gamli strákur skoraði sjö mörk og lagði upp önnur tíu í 50 leikjum fyrir Barcelona á síðasta tímabili og nú í sumar skoraði hann eitt mark og lagði upp fjögur fyrir liðsfélaga sína í spænska landsliðinu er Spánverjar tryggðu sér sinn fjórða Evrópumeistaratitil í sögunni.

Frammistaða hans á EM sá til þess að hann var valinn besti ungi leikmaður mótsins.

Yamal átti vissulega frábært mót fyrir spænska liðið, en það sem gerir frammistöðu hans enn merkilegri er að hann varð aðeins 17 ára gamall síðastliðinn laugardag. Hann segir að hann hafi fengið bestu afmælisgjöf sögunnar.

„Ég er ótrúlega glaður. Þetta er algjör draumur. Ég hlakka til að fara aftur til Spánar og fagna þessu með öllum aðdáendunum. Þetta er besta afmælisgjöf sögunnar,“ sagði Yamal eftir að Spánverjar tryggðu sér Evrópumeistaratitilinn í gær.

„Það var erfitt þegar England jafnaði metin. Ég veit ekki úr hverju þetta lið er gert, en við náum alltaf að koma okkur aftur á lappirnar þegar við erum slegnir niður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×