Innlent

Þor­björn kominn heim eftir átta mánaða fjar­veru

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Aðsetur sveitarinnar var flutt til Njarðvíkur þegar Grindavík var rýmd.
Aðsetur sveitarinnar var flutt til Njarðvíkur þegar Grindavík var rýmd. Vísir/Vilhelm

Björgunarsveitin Þorbjörn hefur snúið aftur til húsakynna sína í Grindavík eftir átta mánaða fjarveru þar sem aðsetur sveitarinnar var fært til Njarðvíkur vegna jarðhræringanna.

Í færslu sem björgunarsveitin Þorbjörn birti á Facebook í nótt segist sveitin vera komna heim.

Í gærkvöldi mættu þrjátíu félagar sveitarinnar til að flytja, þrífa og endurskipuleggja búnað sveitarinnar og gera klárt fyrir næstu verkefni.

„Við höfum verið svo lánsöm að geta bæði haldið úti félagsstarfi okkar og útkallsgetu frá því í nóvember þó svo að aðstæður okkar hafi breyst mjög mikið. Starfið í björgunarsveit er fyrst og fremst félagsstarf og er óhætt að segja að hópurinn, sem telur tæplega 50 manns, sé ákaflega þéttur og vel samstilltur en það hefur reynst vera lykilatriði,“ segir í færslunni.

Húsið var svoleiðis tekið í gegn í gær.Björgunarsveitin Þorbjörn

Tekið er þó fram að allir félagar sveitarinnar eru í dag fluttir úr Grindavík. Nokkrir starfi þó í Grindavík á daginn og um helmingur hópsins búi á Suðurnesjum.

„Þrátt fyrir þetta ætlum við að halda áfram að sinna útköllum og verkefnum en fyrst og fremst halda áfram okkar góða félagsstarfi í Grindavík,“ segir í færslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×