Enski boltinn

Wiegman gaf lítið fyrir það að hún gæti tekið við enska karlalandsliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sarina Wiegman ræðir við leikmenn enska landsliðsins eftir leikinn gegn Svíþjóð í gær. Hann endaði með markalausu jafntefli sem dugði Englandi til að komast á EM 2025.
Sarina Wiegman ræðir við leikmenn enska landsliðsins eftir leikinn gegn Svíþjóð í gær. Hann endaði með markalausu jafntefli sem dugði Englandi til að komast á EM 2025. getty/Naomi Baker

Sarina Wiegman, þjálfari enska kvennalandsliðsins, gaf lítið fyrir orðróm þess efnis að hún gæti tekið við karlalandsliðinu af Gareth Southgate.

Enska karlalandsliðið er þjálfaralaust eftir að Southgate sagði upp í gær. Hann stýrði Englandi í átta ár og á þeim tíma komst liðið tvisvar í úrslit EM.

Ýmsir hafa verið orðaðir við þjálfarastarf enska landsliðsins síðasta sólarhringinn, meðal annars Wiegman sem hefur gert frábæra hluti með enska kvennalandsliðið. Undir hennar stjórn urðu Englendingar Evrópumeistarar 2022 og komust í úrslit á HM 2023.

England tryggði sér sæti á EM 2025 með því að gera markalaust jafntefli við Svíþjóð í gær. Eftir leikinn var Wiegman spurð út í orðróminn um að hún gæti tekið við karlalandsliðinu. Hún gaf lítið fyrir þær sögusagnir.

„Mér finnst mjög óviðeigandi að tala um þetta. Ég er með Ljónynjunum og er mjög ánægð,“ sagði Wiegman sem er samningsbundin enska knattspyrnusambandinu til 2027.

Wiegman hrósaði Southgate fyrir starfið sem hann vann með enska landsliðið.

„Ég er leið yfir því að hann sé að hætta. Ég kann mjög vel við Gareth sem manneskju og þjálfara. Það sem hann gerði með enska liðið á löngum tíma er mjög hvetjandi. Það er eitthvað til að vera mjög, mjög stoltur af og gerir Englendinga mjög stolta,“ sagði Wiegman.

„Hann er svo indæll náungi og frábær þjálfari. Við hittumst ekki oft en þegar það gerðist var það mjög indælt. Það sem hann gerði fyrir enskan fótbolta var ótrúlegt.“

Næsti leikur enska karlalandsliðsins er gegn írsku strákunum hans Heimis Hallgrímssonar í Þjóðadeildinni 7. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×