Samkvæmt The Sun er Joachim Löw tilbúinn að ræða við enska knattspyrnusambandið um möguleikann á að taka við landsliðinu.
Englendingar eru í þjálfaraleit eftir að Gareth Southgate sagði af sér eftir EM í Þýskalandi. Þar endaði enska liðið í 2. sæti, annað Evrópumótið í röð.
Enska knattspyrnusambandið ku helst vilja ráða Englending í starfið en það er ekki meitlað í stein. Því gæti Löw komið til greina.
Löw hefur ekki þjálfað síðan hann hætti með þýska landsliðið fyrir þremur árum. Síðasti leikur hans við stjórnvölinn var einmitt í 2-0 tapi fyrir Englandi í sextán liða úrslitum á EM 2021.
Löw stýrði þýska landsliðinu í fimmtán ár. Undir hans stjórn urðu Þjóðverjar heimsmeistarar 2014, lentu í 2. sæti á EM 2008 og því þriðja á HM 2010.