Enski boltinn

Man United stað­festir komu Yoro og söluna á Greenwood

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Erik Ten Hag, þjálfari Man United, og nýjasti leikmaður liðsins.
Erik Ten Hag, þjálfari Man United, og nýjasti leikmaður liðsins. Manchester United/Getty Images

Manchester United hefur staðfest kaupin á franska varnarmanninum Leny Yoro. Sá var liðsfélagi Hákons Arnars Haraldssonar hjá Lille á síðustu leiktíð en hefur nú fært sig yfir Ermasundið til Man United.

Í sömu andrá hefur Man United staðfest brottför Mason Greenwood. Hann hefur verið seldur til franska félagsins Marseille.

Hinn 18 ára gamli Yoro hefur vakið mikla athygli undanfarið tímabil og var gríðarlega eftirsóttur í sumar. Talið var að hann myndi ganga í raðir Real Madríd en Evrópu- og Spánarmeistararnir vildu fá hann frítt næsta sumar svo forráðamenn Man United ákváðu að ganga í það að kaupa miðvörðinn.

„Að skrifa undir hjá liði af þessari stærðargráðu og með þennan metnað svo snemma á ferli mínum er mikill heiður,“ sagði Yoro við undirskriftina. Hann skrifar undir samning til ársins 2029 með möguleika á árs framlengingu.

Yoro er annar leikmaðurinn sem Man United kaupir í sumar en áður hafði Joshua Zirkzee, framherji frá Hollandi, gengið í raðir félagsins.

Framherjinn Greenwood hefur ekki spilað fyrir Man United síðan kærasta ásakaði hann um líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi. Birti hún myndir og hljóðbrot því til sönnunar. Fallið var frá ákæru eftir að hún dró vitnisburð sinn til baka.

Leikmaðurinn var lánaður til Getafe á Spáni á síðustu leiktíð og hefur nú verið seldur til Marseille.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×