Fótbolti

María til Linköping: „Draumur síðan ég var lítil“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
María Catharína Ólafsdóttir Grós í leik með Fortuna Sittard.
María Catharína Ólafsdóttir Grós í leik með Fortuna Sittard. getty/Rico Brouwer

Fótboltakonan María Catharína Ólafsdóttir Grós er gengin í raðir Linköping í Svíþjóð frá hollenska liðinu Fortuna Sittard.

María skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning við Linköping sem er í 6. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar.

María lék með Þór/KA áður en hún fór til skoska stórliðsins Celtic 2021. Þaðan lá leiðin svo til Fortuna Sittard í Hollandi.

Hin 21 árs María á að baki 33 leiki fyrir yngri landslið Íslands. Hún á sænska móður og getur því einnig spilað fyrir Svíþjóð.

„Ég er mjög spennt og glöð að hafa samið við Linköping. Það hefur verið draumur síðan ég var lítil að spila í sænsku deildinni og ég er stolt og þakklát að fyrsti sænski samningurinn minn skuli vera við svona sögufrægt og flott félag,“ sagði María við undirskriftina.

Hjá Fortuna Sittard lék María með Hildi Antonsdóttur og Láru Kristínu Pedersen. Hildur er einnig farin frá félaginu en ekki liggur enn fyrir hvert næsta skref hennar á ferlinum verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×