Enski boltinn

Á­kærður Barton segir Bret­land verðandi banana­lýð­veldi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Verið án starfs síðan í október á síðasta ári.
Verið án starfs síðan í október á síðasta ári. Matthew Ashton/Getty Images

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Joey Barton heldur áfram að fara hamförum á samfélagsmiðlum. Nú eftir að hann var ákærður vegna ummæla um fjölmiðla- og fyrrverandi landsliðskonunnar Eni Aluko.

Hinn 41 árs gamli Barton lagði skóna á hilluna 2017 en hefur ekki komið að knattspyrnu síðan á síðasta ári þegar honum var sagt upp störfum hjá Bristol Rovers. Þar hafði hann verið frá 2021 en frá 2018 til 2021 var hann þjálfari Fleetwood Town.

Síðan Barton var sagt upp hjá Bristol Rovers hann hefur verið duglegur að láta gamminn geysa á samfélagsmiðlum og þá aðallega er kemur að kvenfólki sem fjallar um karlkyns íþróttir.

Barton tókst að toppa sjálfan sig í ósmekklegheitum þegar hann sagði þær Aluko og Lucy Ward vera „Fred og Rose West fótboltalýsinga“ en hjónin Fred og Rose West voru breskir raðmorðingjar sem frömdu í það minnsta tólf morð á 20 ára tímabili.

Þá tjáði Barton sig um fjölskyldu Alukos. Hann hélt því meðal annars fram að faðir hennar, fyrrverandi þingmaður í Nígeríu, hefði auðgast á vafasaman hátt og hún hefði notað góðs af því.

Aluko hefur óttast um öryggi sitt og sagðist hafa flúið land vegna netníðs frá Barton og fleirum. Á endanum leitaði hún til lögfræðings og var Barton ákærður vegna ummæla sinna.

Það þarf kannski ekki að taka fram að Barton tók ekki vel í ákæruna og hefur að sjálfsögðu tjáð sig um málið á samfélagsmiðlum. Þar segir hann Bretland vera í þann mund að verða bananalýðveldi og svo spyr hann hvort lögreglan hafi nú ekki mikilvægari hluti að gera heldur en að elta mál sem þessi.

„Ekki alveg Norður-Kórea en það styttist,“ sagði hann jafnframt í færslunni sem sjá má hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×