Enski boltinn

Státar sig af gengi United liðsins undir hans stjórn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erik ten Hag hefur unnið bikar á báðum tímabilum sínum sem knattspyrnustjóri Manchester United þar á meðal enska bikarinn í vor.
Erik ten Hag hefur unnið bikar á báðum tímabilum sínum sem knattspyrnustjóri Manchester United þar á meðal enska bikarinn í vor. Getty/Michael Regan

Manchester United hefur ekki endað neðar í ensku úrvalsdeildinni síðan vorið 1990 en hollenski knattspyrnustjóri liðsins segir liðið vera á góðum stað.

Erik ten Hag hélt starfi sínu sem knattspyrnustjóri Manchester United eftir smá óvissu í vor og hann ætti líka að vera sáttur með framgöngu yfirmanna sinn á leikmannamarkaðnum í sumar.

Á meðan hin toppliðin í ensku úrvalsdeildinni hafa lítið gert á markaðnum hefur United þegar keypti tvo öfluga leikmenn og er að auki orðað við fleiri leikmenn.

Þegar kemur að Ten Hag sjálfum og mati hans á tíma hans á Old Trafford þá er hann kannski með aðeins aðra sýna á það en margir.

Ten Hag montaði sig þannig af gengi liðsins undir hans stjórn. Hann telur einnig að félagið sé á mjög góðum stað.

„Á síðustu tveimur árum, ef við tökum Guardiola út úr menginu, þá erum við það lið sem hefur unnið flesta titla af öllum liðunum. Við erum því í sterkri stöðu sem lið,“ sagði Erik ten Hag í viðtali við The Times.

Erik ten Hag tók við liði United fyrir 2022-23 tímabilið. Á fyrstu leiktíðinni endaði liðið í þriðja sæti, varð enskur deildabikarmeistari og komst í bikarúrslitaleikinn á móti Manchester City.

Á annarri leiktíðinni þá endaði United aðeins í áttunda sæti og missti af Meistaradeildinni en vann síðan Manchester City í úrslitaleik enska bikarsins. Versta staða United í ensku úrvalsdeildinni í 34 ár en risastór sigur á Wembley sem bjargaði algjörlega erfiðu tímabili.

Ten Hag er ekkert að fara með neinar fleipur þegar kemur að titlatölum síðustu tveggja tímabila.

Manchester United hefur því unnið tvo titla á síðustu tveimur tímabillum en Liverpool (1), Arsenal (0) hafa ekki unnið svo marga titla. Manchester City er aftur á móti með fjóra titla þar af komu þrír þeirra á 2022-23 tímabilinu.

United hefur alls leikið 114 leiki undir stjórn Hollendingsins, unnið 66 og tapað 31. Sigurhlutfallið er 57,9 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×