Fótbolti

Real fékk Mbappé en Barcelona Mbacke

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mamadou Mbacke er nú orðinn fullgildur leikmaður Barcelona og því smá svar við því að Real Madrid samdi við Kylian Mbappe.
Mamadou Mbacke er nú orðinn fullgildur leikmaður Barcelona og því smá svar við því að Real Madrid samdi við Kylian Mbappe. Getty/Diego Souto

Barcelona hefur gengið frá kaupunum á Mamadou Mbacke Fall frá bandaríska félaginu Los Angeles FC.

Mbacke var á láni hjá varaliði Barcelona á síðustu leiktíð en spænska félagið hefur nú gengið frá endanlegum félagsskiptum leikmannsins.

Netverjar voru fljótir að benda á það að þetta væri í raun svar Barcelona við stærstu félagskiptum erkifjenda þeirra í Real Madrid. Real fékk Kylian Mbappé á frjálsri sölu frá Paris Saint Germain í sumar og Barcelona náði því í Mbacke í staðinn.

Þessir leikmenn gætu þó ekki verið ólíkari þótt að nöfnin séu lík. Þá er bæði verið að tala um leikstíl og frægð.

Þeir spila á sitthvorum megin á vellinum. Á meðan Mbappé hefur verið lengi í hópi bestu knattspyrnumanna heims þá er hinn 21 árs gamli Mbacke enn eftir að sanna sig meðal þeirra bestu.

Hann hefur reyndar spilað 36 leiki með Los Angeles FC í MLS deildinni og spilaði einnig einn leik í La Liga þegar hann var á láni hjá Villarreal tímabilið 2022-23. Mbacke spilaði 21 leik fyrir varalið Barcelona síðasta vetur þar af var hann í byrjunarliðinu í nítján leikjum.

Barcelona hefur engu að síður mikla trúa á þessum senegalska varnarmanni og hann fær tveggja ára samning hjá félaginu með möguleika á því að framlengja samninginn um tvö ár í viðbót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×