Þegar sextán mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í leik Argentínu og Marokkós í Saint-Étienne dag jafnaði Cristian Medina metin í 2-2.
Í kjölfarið brutust út ólæti; hlutum var kastað inn á völlinn og stuðningsmenn Marokkós hlupu inn á grasið.
Leikurinn var síðan stöðvaður og liðin fóru til búningsherbergja á Stade Geoffroy-Guichard. Flestir héldu þá að leiknum væri lokið og það með 2-2 jafntefli. Svo reyndist ekki vera.
Um klukkutíma eftir að ólætin brutust út sögðu mótshaldarar að leiknum væri nefnilega ekki lokið og klára þyrfti síðustu þrjár mínútur hans.
Ekki nóg með það heldur var jöfnunarmarkið sem Medina skoraði dæmt af vegna rangstöðu eftir skoðun á myndbandi.
Argentínu tókst ekki að jafna á þeim þremur mínútum sem átti eftir að leika og Marokkó hrósaði því 2-1 sigri í viðureign sem verður lengi í minnum höfð.
Javier Mascherano er þjálfari argentínska Ólympíulandsliðsins og hann átti varla orð eftir leikinn í Saint-Étienne í dag.
„Þetta er mesti sirkus sem ég hef orðið vitni að á lífsleiðinni,“ sagði Mascherano sem hefur nú upplifað eitt og annað á löngum ferli í fótboltanum.
Eftir þennan langa leik og furðulegu atburðarrás er Marokkó með þrjú stig í B-riðli en Argentína ekki neitt. Þegar þetta er skrifað er hálfleikur í leik Úkraínu og Íraks í sama riðli. Staðan þar er markalaus.