Körfubolti

Bless Barkley, Shaq og fé­lagar: TNT stöðin missir NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shaquille O'Neal, Ernie Johnson, Kenny Smith og Charles Barkley hafa farið lengi á kostum í Inside the NBA þáttunum á TNT.
Shaquille O'Neal, Ernie Johnson, Kenny Smith og Charles Barkley hafa farið lengi á kostum í Inside the NBA þáttunum á TNT. TNT Sports

NBA deildin í körfubolta ætlar að segja skilið við margra áratuga samstarf sitt við TNT sjónvarpsstöðina en þetta varð endanlega ljóst þegar gengið var frá sjónvarpssamningum við Disney, NBC og Amazon Prime Video í gær.

Þetta er ellefu ára samningur og mun færa deildinni um 76 milljarða Bandaríkjadala á þessum tíma eða meira en tíu þúsund og fimm hundruð milljarða íslenskra króna. Ótrúleg upphæð sem mun skila leikmönnum enn hærri launum á næstu árum.

Discovery, eigandi TNT Sports, bauð 1,8 milljarða dala á ári til að halda áfram samstarfinu en því var ekki tekið. Næsta tímabil, 2024-25, verður því það síðasta sem NBA er á TNT Sports stöðinni.

NBA hefur verið á TNT í næstum því fjóra áratugi. Turner Sports er mjög ósátt með þróun mála og telur að það hafi verið í samningi sínum við NBA að deildin yrði að taka þeirra tilboði. Eða eins og TNT orðaði það „NBA mistúlkaði alvarlega okkar samningarétt“.

„Við höfum jafnað tilboðið frá Amazon eins og samningurinn hefur okkur leyfi til. Við teljum að NBA geti ekki hafnað því,“ sagði í tilkynningu frá TNT Sports. NBA svaraði með þessu með því að segja að tilboð TNT hafi í raun ekki verið jafngott og það frá hinum.

Disney (ABC/ESPN), NBCU (NBC/Peacock) og Amazon munu nú skipta leikjunum á milli sína.

Þetta þýðir jafnframt, sem margir telja að sé mesti skaðinn, er að hinn vinsæli þáttur á TNT, „Inside the NBA“, mun nú heyra sögunni til. Þar hafa þeir Charles Barkley, Shaquille O'Neal, Kenny Smith og Ernie Johnson farið á kostum og aukið með því hróður deildarinnar.

Barkley hefur talað mikið um þetta mál í fjölmiðlum og það er líklegast að hann hætti algjörlega afskiptum sínum að sjónvarpi sem yrði líka mikil synd.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×