Innlent

Pósturinn varar við netþrjótum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Tæknirekstrarstjóri hjá Póstinum segir ástæðu til að vara fólk við.
Tæknirekstrarstjóri hjá Póstinum segir ástæðu til að vara fólk við. Pósturinn

Netþrjótar hafa herjað á landsmenn sem aldrei fyrr undanfarnar vikur. Jökull Jóhannsson, tæknirekstrarstjóri hjá Póstinum, segir ástæðu til að vara fólk við.

„Margir eru orðnir ansi lunknir við að bera kennsl á svikapósta en oft þarf að rýna í þá til að átta sig á hvers kyns er,“ er haft eftir Jökli í fréttatilkynningu frá Póstinum. Svikapóstarnir séu þess eðlis að fólk er beðið um að smella á vefslóð og setja inn greiðsluupplýsingar. Slík skilaboð komi aldrei frá Póstinum.

Jökull bendir fólki á að til að sjá hvort raunverulega sé von á sendingu sé hægt að skrá sig inn á Mínar síður á vef Póstsins eða í gegn um Póstsforritið. 

Besta leiðin til átta sig á því hvort um sé að ræða svikapóst eða ekki sé að skoða netfangið sem pósturinn er sendur úr. Tölvupóstur sem kemur frá Póstinum endi á @postur.is eða @posturinn.is.

Hafi einhver slysast til að smella á hlekk í svikapósti mælir Jökull með að hafa strax samband við viðskiptabankann sinn. Svo væri vel þegið að viðkomandi áframsendi svikapóstinn á oryggi@posturinn.is. Þannig sé líklegra að Pósturinn geti spornað gegn netsvindlinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×