Erlent

Einn valdam­esti fíkni­efna­barón heims hand­tekinn

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Ismael „El Mayo“ Zambada hefur verið handtekinn ásamt syni Joaquin „El Chapo“ Guzman.
Ismael „El Mayo“ Zambada hefur verið handtekinn ásamt syni Joaquin „El Chapo“ Guzman. AP

Ismael „El Mayo“ Zambada, leiðtogi mexikóska Sinaloa eiturlyfjahringsins, hefur verið handtekinn í El Paso í Texas. Hann hefur verið ákærður af saksóknurum í Bandaríkjunum meðal annars fyrir að hafa framleitt og dreift fentanyl, öflugu eiturlyfi sem hefur valdið ópíóðakrísu í Bandaríkjunum.

Hinn sjötíu og sex ára gamli Zambada stofnaði glæpasamtökin Sinaloa ásamt Joaquin „El Chapo“ Guzman, sem dæmdur var í lífsstíðarfangelsi í Bandaríkjunum árið 2019. Sonur Guzmans hefur nú verið handtekinn ásamt Zambada.

Enn er nokkuð óljóst hvernig handtakann kom til, en samkvæmt New York Times var Zambada blekktur af syni Guzmans til að fara um borð í einkaflugvél á fölskum forsendum. Sagt er að Guzman kenni Zambada um handtöku föður hans fyrir nokkrum árum.

Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Merrick Garland, sagði í skriflegri yfirlýsingu á fimmtudaginn að mennirnir tveir hefðu leitt „eina ofbeldisfyllstu og valdamestu eiturlyfjaklíku heims.“

„Fentanyl er banvænasta eiturlyfið sem landinu okkar hefur staðið ógn af. Dómsmálaráðuneytið mun ekki hvílast fyrr en hver einasti fíkniefnabarón, meðlimir og samstarfsmenn þeirra, sem bera ábyrgð á því að eitra fyrir samfélaginu okkar, hefur verið dreginn til saka“ sagði Merrick Garland.

Fentanyl er algengasta dánarorsök fólks á aldrinum 18 til 45 ára í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×