Íslenski boltinn

Matthías frá keppni næstu átta vikurnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Erlingur Agnarsson ræðir við Matthías Vilhjálmsson í leik nýverið.
Erlingur Agnarsson ræðir við Matthías Vilhjálmsson í leik nýverið. Vísir/Hulda Margrét

Þúsundþjalasmiðurinn Matthías Vilhjálmsson mun ekki leika með Íslands- og bikarmeisturum Víkings næstu átta vikurnar vegna meiðsla.

Þetta staðfesti Arnar Gunnlaugsson, þjálfari liðsins, í samtali við Vísi eftir 5-1 sigur liðsins á HK í Bestu deild karls í knattspyrnu. Eftir leik var Arnar spurður hann ætti von á að það yrðu breytingar á leikmannahópi liðsins áður en félagaskiptaglugginn lokar.

„Nei ég á ekki von á miklum breytingum en það getur vel verið að Sveinn Gísli fari á lán. Það var gaman að geta loksins gefið honum mínútur hér í kvöld þar sem hann hefur ekki fengið að vera í byrjunarliðinu áður. En annars þurfum við meira bara að fá menn til baka eins og Aron og Jón Guðna og Matta sem verður að vísu frá í átta vikur,“ sagði Arnar.

Hinn 37 ára gamli Matthías hefur komið við sögu í 13 leikjum í Bestu deildinni til þessa á leiktíðinni og skorað eitt mark. Kom það í 1-1 jafntefli við KR í síðasta mánuði.

Hann verður nú frá keppni næstu vikurnar og missir af mikilvægum leikjum, þar af síðari leik Víkings og Egnatia frá Albaníu í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu. Albanska liðið leiðir 1-0 eftir fyrri leik liðanna.

Þá missir Matthías einnig af bikarúrslitaleiknum gegn KA sem fram fer þann 23. ágúst næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×