Upp­gjörið: Tinda­stóll - Þór/KA 3-3 | Ó­trú­leg endur­koma Stólanna

Arnar Skúli Atlason skrifar
Stólarnir gáfust ekki upp gegn Akureyringum.
Stólarnir gáfust ekki upp gegn Akureyringum. vísir/hag

Þrátt fyrir að vera tveimur mörkum undir þegar sex mínútur voru til leiksloka náði Tindastóll í stig gegn Þór/KA í 15. umferð Bestu deildar kvenna í kvöld. Lokatölur á Sauðárkróki, 3-3.

Tindastóll fékk fyrsta færi leiksins strax á upphafs mínútum leiksins þegar slakt útspark Hörpu Jóhannsdóttir fór beint á framherja Tindastóls, Birgittu Finnbogadóttur, en skot hennar fór í þverslá og yfir markið.

Eftir þetta var lítið í gangi, liðin að þreifa fyrir sér, stöðubaráttan var mikil og lítið um opin færi.

Það dró til tíðinda á 23. mínútu leiksins þegar Tindastóll tóku stutt horn. Elísa Bríet Björnsdóttir tók hornið, fann Birgittu sem gaf hann aftur út á Elísu sem þrumaði boltanum fyrir og Elise Anne Morris stangaði hann í netið, óverjandi fyrir Hörpu.

Tindastóll voru ekki lengi í draumalandi því á 36. mínútu Fékk Sandra María Jessen sendingu upp vinstri vænginn og kemur boltanum inná teiginn þar sem Monica Wilhelm kom út úr markinu og sló boltann út úr teignum þar var Karen María Sigurgeirsdóttir fyrst að átta sig og með einni snertingu komst hún inná teiginn á milli tveggja varnarmanna Tindastóls og átti skot á nærstöngina. Boltinn fór í netið og gestirnir frá Akureyri búnar að jafna.

Þór/KA var ekki lengi að bæta við marki því á markamínútunni miklu tveimur mínútum fyrir leikhlé lyfti Agnes Birta Stefánsdóttir boltanum yfir vörn Tindastóls og Sandra María var kominn ein á auðan sjó á móti Monicu og setti boltann örugglega í fjærhornið. Staðan því 1-2 fyrir Þór/KA og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Tindastól hóf seinni hálfleik og fékk fyrsta tækifærið. Elísa Bríet slapp þá í gegnum vörn Þórs/KA en Agnes Birta togaði í hana og aukaspyrna dæmd. Agnes Birta fékk gult spjald en liturinn hefði leikandi getað verið rauður.

Elísa Bríet tók aukaspyrnuna sjálf og skaut í slánna niður og Þór/KA var stál heppið að Tindastóll jafnaði ekki leikinn.

Þór/KA bætti í á 62. mínútu Sandra María skipti boltanum frá vinstri yfir á hægri kantinn. Hulda Ósk Jónsdóttir var fyrst á boltann og kemur honum á Bryndísi Eiríksdóttur sem átti sendingu inná teiginn hjá Tindastóli og Karen María var þar ein og óvölduð fyrir opnu marki og lagði hann i netið og Þór/KA komið í þægilega 3-1 stöðu.

Það var skrýtið atvik sem átti sér stað á 77. mínútu, Þá var dæmd óbein aukaspyrna á Tindastól upp úr klafsi inn í teignum en Þór/KA skaut úr aukaspyrnunni í varnarmann Tindastóls.

Leikurinn virtist ætla að fjara út og lítið var að gerast en á 84. mínútu fékk Tindastóll hornspyrnu. Laufey Harpa Halldórsdóttir tók hana og hitti á ennið á Jordyn Rhodes og hún hamraði boltann með enninu í netið og Tindastóll búið að minnka muninn í eitt mark.

Tindastóll pressaði undir lokinn og þar bar árangur, á 93. mínútu fékk Tindastóll vítaspyrnu eftir að skot Laufeyjar Hörpu fór í hendi varnarmanns Þórs/KA og slakur dómari leiksins, Guðmundur Páll Friðbertsson, dæmdi vítaspyrnu. Rhodes fór á punktinn og setti boltann í slánna inn, óverjandi fyrir markmann Þór/KA.

Stuttu seinna flautaði dómari leiksins leikinn af og liðin skyldu því jöfn. Eftir leikinn flaggaði dómarinn rauða spjaldinu á Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfara Þór/KA en dró það svo til baka tveimur mínútum seinna.

En frábær og skemmtilegur leikur milli tveggja frábærra liða á Sauðárkróki í kvöld.

Atvik leiksins

Þau eru tvö. Vítið sem dómarinn dæmdi, það var eiginlega aldrei víti bara, hendurnar upp við bringu og ekki baðaðar út og svo var þessi óbeina aukaspyrna algjör þvæla líka.

Stjörnur og skúrkar

Rhodes og Elise Anne Morris voru mjög öflugar í liði Tindastóls í kvöld og fór allt í gegnum Jordyn sóknarlega og Elise er að gera gott mót hjá Stólunum.

Sandra María, Hulda Ósk og Karen María voru hættulegar í sínum aðgerðum. Það gerðist ekkert hjá Þór/KA nema að þær bjuggu það til og voru innvínklaðar.

Ég set skúrkinn á Jóhann Kristinn þjálfara Þórs/KA, hann fór að rótera í liðinu þegar það var að sigla þessum öruggu þremur stigum heim. Til að mynda spilaði Sandra María vinstri bakvörð seinustu fimm mínúturnar í leiknum.

Dómarar

Þeir hafa átt betri dag; þeir slökustu sem hafa verið á Sauðárkróksvelli í sumar og réðu heldur betur ekki við verkefnið í dag. Þeir fá tvo af tíu í einkunn.

Stemning og umgjörð

Það var stemning í dag á vellinum, margir í stúkunni og margir frá Þór/KA og allt glæsilegt. Gæslumenn og boltasækjarar á hverju horni og veðrið frábært til knattspyrnuiðkunnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira