Innlent

Auknar líkur á að eld­gos hefjist á næstu dögum

Eiður Þór Árnason skrifar
Áframhaldandi virkni er á Reykjanesskaga sem virðist ekki ætla í langt sumarfrí.
Áframhaldandi virkni er á Reykjanesskaga sem virðist ekki ætla í langt sumarfrí. Vísir/Arnar

Auknar líkur eru á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Reykjanesskaga á næstu dögum, að mati náttúruvásérfræðinga hjá Veðurstofunni. Fjöldi daglegra skjálfta á Sundhnúksgígaröðinni fer hægt vaxandi.

Mælingar og líkanútreikningar benda til að nægur þrýstingur sé búinn að byggjast upp í kerfinu til að koma af stað nýjum atburði á næstu dögum. Hægt hefur örlítið á landrisi síðustu daga. Þegar það sést samhliða þeirri jarðskjálftavirkni sem mældist í gær getur það verið vísbending um að það styttist í næsta kvikuhlaup og jafnvel eldgos.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir að viðbragðsáætlanir miði við að kvikuhlaup gæti farið af stað hvenær sem er næstu daga og það jafnvel endað með eldgosi. Ef atburðarrásin verði sambærileg og í aðdraganda fyrri eldgosa á svæðinu gæti fyrirvarinn verið mjög stuttur.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði sagði á þriðjudag að mestar líkur væru á því að næsta eldgos á Reykjanesskaga verði á sama stað og síðustu gos á svæðinu. Ólíklega muni gjósa inni í Grindavík.

Eldgos hófst síðast í Sundhnúksgígaröðinni 29. maí og lauk um þremur vikum síðar þann 22. júní.

Núgildandi hættumatskort sem sýnir meðal annars hvar hætta er á hraunflæði og jarðfalli ofan í sprungu.Veðurstofan og Jarðvísindastofnun

Tengdar fréttir

„Munum hafa nægan tíma til að bregðast við ef við þurfum“

Prófessor í eldfjallafræði segir mestar líkur á að næsta eldgos á Reykjanesskaga verði á sama stað og síðustu gos á svæðinu. Ólíklega muni gjósa inni í Grindavík og því sé skammur viðbragðstími ekki endilega áhyggjuefni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×