Erlent

Tók á móti fyrstu F-16 þotunum

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Frá blaðamannafundinum í dag.
Frá blaðamannafundinum í dag. getty

Úkraínumenn hafa tekið á móti fyrstu F-16 herþotunum. Þetta staðfesti Volódómír Selenskí Úkraínuforseti á blaðamannafundi þar sem tvær slíkar þotur voru í bakgrunni. 

Atlantshafsbandalagið hafði heitið því að senda Úkraínumönnum um 65 slíkar herþotur. Ekki liggur fyrir hversu margar þotur eru þegar komnar til Úkraínu, eða nákvæmlega hvaðan þær komu. Selenskí þakkaði hins vegar Bandaríkjamönnum, Dönum og Hollendingum sérstaklega í ræðu sinni. 

„F-16 þotur í Úkraínu, við gerðum það,“ sagði Selenskí á ónefndri herstöð þar sem blaðamannafundurinn var haldinn. 

Selenskí þakkaði bandalagsríkjum NATO, sem höfðu áður verið hikandi við að flytja svo öflug hergögn til Úkraínu. Sendingunni er ætlað að styrkja flugherinn töluvert. Núverandi þotuflotinn samanstendur aðallega af flugvélum frá sovíettímum. 

Búist er við því að fleiri F-16 þotur mæti til Úkraínu á næstu mánuðum. Hermálayfirvöld í mörgum vestrænum NATO-ríkjum hafa unnið að því að uppfæra þotuflotann með F-35 þotum sem kynntar voru til sögunnar árið 2015. F-16 þoturnar voru kynntar til leiks árið 1978. 

Selenskí þakkaði bandalagsríkjum.getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×