Sport

Bætti heims­metið í níunda sinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Armand Duplantis bætti heimsmetið í stangarstökki í níunda sinn í kvöld.
Armand Duplantis bætti heimsmetið í stangarstökki í níunda sinn í kvöld. Patrick Smith/Getty Images

Sænski stangarstökkvarinn Armand Duplantis gerði sér lítið fyrir og bætti heimsmetið í greininni í níunda sinn á ferlinum.

Eins og við var að búast bar Duplantis öruggan sigur úr býtum í úrslitum stangarstökki karla á Ólympíuleikunum í kvöld. Eins og svo oft áður var Duplantis að eltast við metin á meðan aðrir keppendur urðu að gera sér það að góðu að berjast um silfrið.

Duplantis sleppti því að stökkva yfir helming hæðanna sem boðið var upp á áður en sláin var hækkuð í sex metra. Hann flaug hátt yfir sex metrana og gerði svo slíkt hið sama þegar sláin var hækkuð í 6,10 metra.

Fyrir kvöldið í kvöld var Ólympíumet Brasilíumannsins Thiago Braz da Silva 6,03 metrar og Duplantis því búinn að stórbæta það.

Duplantis var þarna þegar búinn að tryggja sér gullverðlaunin, en hann var hvergi nærri hættur. Hann ætlaði sér að bæta sitt eigið heimsmet, sem var 6,24 metrar.

Hann hafði flogið yfir hverja einustu hæð fram að þessu án þess að fella slána, en þegar sláin var hækkuð í 6,25 metra vandaðist verkefnið. Duplantis felldi í fyrstu tveimur tilraununum, en kom sér nokkuð örugglega yfir í þriðju og síðustu tilraun og náði því að næta sitt eigið heimsmet um einn sentímetra.

Þetta er í níunda sinn sem Duplantis bæti heimsmetið, en hann gerði það fyrst í febrúar árið 2020 þegar hann fór yfir 6,17 metra. Duplantis á þó enn nokkuð í land með að ná Sergey Bubka, sem á sínum tíma bætti heimsmetið í stangarstökki sautján sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×