Fótbolti

Frakkar í úr­slit eftir fram­lengingu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jean-Philippe Mateta fagnar öðru marki sínu með þjálfara franska liðsins, Thierry Henry. 
Jean-Philippe Mateta fagnar öðru marki sínu með þjálfara franska liðsins, Thierry Henry.  Claudio Villa/Getty Images

Frakkar eru komnir í úrslit knattspyrnukeppni karla á Ólympíuleikunum eftir 3-1 sigur gegn Egyptum í framlengdum leik.

Frakkar voru sterkari aðilinn í leik kvöldsins, en það voru þó Egyptar sem voru fyrri til að brjóta ísinn. Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Mahmoud Saber egypska liðinu á 62. mínútu og Frakkar því með bakið upp við vegg.

Eftir látlausa sókn franska liðsins jafnaði Jean-Philippe Mateta hins vegar metin fyrir Frakka á 83. mínútu eftir stoðsendingu frá Michael Olise og því stefndi allt í framlengingu. 

Franska liðið vildi fá vítaspyrnu þegar komið var langt fram yfir venjulegan leiktíma þegar varnarmaður Egypta handlék knöttinn innan vítateigs, en eftir langa skoðun myndbandsdómara var ekkert dæmt og því var enn jafnt þegar uppbótartímanum lauk.

Egyptar komu sér svo í vandræði strax í upphafi framlengingarinnar. Aðeins einni og hálfri mínútu eftir að framlengingin hófst nældi Omar Fayed sér í sitt annað gula spjald og þar með rautt. Egypska liðið þurfti því að leika manni færri það sem eftir lifði leiks.

Franska liðið nýtti sér liðsmuninn og Jean--Philippe Mateta var aftur á ferðinni þegar hann kom Frökkum í forystu á 99. mínútu áður en Michael Olise bætti þriðja marki liðsins við á 108. mínútu.

Manni færri náðu Egyptar ekki að snúa genginu við og niðurstaðan varð 3-1 sigur Frakka sem eru á leið í úrslit þar sem þeir mæta Spánverjum. Egyptar munu hins vegar leika um bronsið þar sem mótherji þeirra verður Marokkó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×