Fótbolti

Óskar Örn orðinn leikjahæstur í sögunni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Óskar Örn Hauksson er orðinn leikjahæsti leikmaður deildarkeppninnar á Íslandi.
Óskar Örn Hauksson er orðinn leikjahæsti leikmaður deildarkeppninnar á Íslandi. Víkingur

Óskar Örn Hauksson setti í kvöld nýtt met þegar hann kom inn á sem varamaður í 3-2 útisigri Víkings gegn FH í Bestu-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Þetta var deildarleikur númer 440 hér á landi hjá Óskari Erni og hefur hann nú leikið fleiri deildarleiki en nokkur annar. Hann sló Íslandsmet Gunnleifs Gunnleifssonar, sem á sínum tíma lék 439 deildarleiki hér á landi.

Víðir Sigurðsson hjá mbl.is tók saman þessa tölfræði og í umfjöllun hans kemur fram að Óskar hafi leikið 49 deildarleiki með Njarðvík, 68 deildarleiki með Grindavík, 296 deildarleiki með KR, 25 deildarleiki með Stjörnunni og nú tvo deildarleiki með Víkingum.

Óskar er ekki aðeins sá leikmaður sem hefur leikið flesta deildarleiki hér á landi, heldur er hann einnig langleikjahæsti leikmaður efstu deildar. Með leik kvöldsins hefur hann leikið 375 leiki í efstu deild hér á landi, 54 leikjum meira en Birkir Kristinsson sem á sínum tíma lék 321 leik í efstu deild. Gunnleifur Gunnleifsson kemur þar á eftir með 304 leiki í efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×