Erlent

Walz hjólaði í Trump og Vance á fyrsta kosninga­fundinum í gær

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Harris og Walz var gríðarlega vel tekið á kosningafundinum í Pennsylvaníu í gær.
Harris og Walz var gríðarlega vel tekið á kosningafundinum í Pennsylvaníu í gær. AP/Matt Rourke

Kamala Harris og Tim Walz, forseta- og varaforsetaefni Demókrataflokksins, stigu saman á svið í Pennsylvaníu í gær við mikinn fögnuð viðstaddra.

„Donald Trump sér heiminn örlítið öðruvísi en við,“ sagði Walz á sínum fyrsta kosningafundi. „Í fyrsta lagi þá veit hann ekki nokkurn skapaðan hlut um þjónustu. Hann hefur ekki tíma fyrir hana því hann er of upptekinn af því að þjónusta sjálfan sig.“

Walz sagði ofbeldisglæpum hafa fjölgað á þeim tíma sem Donald Trump sat í Hvíta húsinu.

„Og þá erum við ekki einu sinni að telja með þá glæpi sem hann framdi.“

Harris tilkynnti um val sitt á Walz sem varaforsetaefni í gær. Ákvörðuninni virðist hafa verið vel tekið af bæði Demókrötum og Repúblikönum sem hugnast ekki Trump en sumir hafa þó furðað sig á því að Josh Shapiro, ríkisstjóri Pennsylvaníu, hafi ekki orðið fyrir valinu.

Shapiro var meðal þeirra þriggja sem valið stóð um á lokasprettinum en Harris þarf að óbreyttu að tryggja sér kjörmenn Pennsylvaníu til að eiga möguleika á forsetastólnum. Shapiro var á meðal þeirra sem stigu á svið á kosningafundinum í gær og hvatti íbúa ríkisins til að kjósa Harris og Walz.

„Tim Walz er frábær maður,“ sagði Shapiro og kallaði varaforsetaefnið að auki „framúrskarandi ríkisstjóra“, „mikinn föðurlandsvin“ og „ástkæran vin“.

„Ég mun gera allt sem ég get til að tryggja að Kamala Harris og Tim Walz verði næstu leiðtogar Bandaríkjanna,“ sagði Shapiro.

Walz, sem komst í sviðsljós fjölmiðla á landsvísu eftir að hafa kallað Trump og varaforsetaefni hans J.D. Vance „skrýtna“ (e. weird), bætti um betur í gær og kallaði tvíeykið „krípí“ (e. creepy).

Sakaði hann Vance um að sigla undir fölsku flaggi þegar hann freistaði þess að höfða til hvítra íbúa Miðríkjanna úr verkamannastétt með því að þykjast vera einn af þeim. 

„Ég verð að segja; ég get ekki beðið eftir að mæta kauða í kappræðum,“ sagði Walz og bætti svo við: „Það er að segja ef hann nennir að standa upp úr sófanum og mæta á staðinn.“

Þess ber að geta að síðustu ummæli Walz eru líklega tilvísun í ósanna færslu á X sem komst á flug á dögunum um að Vance hefði greint frá því í bók sinni Hillbilly Elegy að hann hefði haft „samfarir“ við latex hanska á milli tveggja sófaseta.

Enga slíka frásögn er að finna í bókinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×