Enski boltinn

Carsley lík­legastur til að stýra Eng­landi gegn strákunum hans Heimis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lee Carsley hefur gert góða hluti með enska U-21 árs landsliðið.
Lee Carsley hefur gert góða hluti með enska U-21 árs landsliðið. getty/Matt McNulty

Lee Carsley, þjálfari enska U-21 árs landsliðsins, mun væntanlega stýra A-landsliðinu í næstu leikjum þess.

Enska knattspyrnusambandið er í leit að þjálfara fyrir A-landsliðið eftir að Gareth Southgate hætti í kjölfar Evrópumótsins í Þýskalandi þar sem England tapaði í úrslitum fyrir Spáni.

Næstu leikir enska landsliðsins eru gegn Írlandi og Finnlandi í Þjóðadeild Evrópu í næsta mánuði. Leikur Írlands og Englands verður fyrsti leikur Íra undir stjórn Heimis Hallgrímssonar.

Sky Sports greinir frá því að líklegast sé að enska knattspyrnusambandið verði ekki búið að ráða landsliðsþjálfara til frambúðar fyrir leikina gegn Írlandi og Finnlandi og Carsley verði því falið að stýra Englandi í þeim.

Undir stjórn Carsleys varð enska U-21 árs landsliðið Evrópumeistari í fyrra. Liðið hefur unnið 23 af 29 leikjum síðan hann tók við því fyrir þremur árum.

Líkt og Carsley var Southgate þjálfari U-21 árs landsliðsins áður en hann tók við A-landsliðinu, fyrst til bráðabirgða í fjórum leikjum áður en hann fékk fjögurra ára samning.

Carsley, sem er fimmtugur, lék lengi með Everton og þá spilaði hann fjörutíu landsleiki fyrir Írland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×