Erlent

Emhoff viður­kennir að hafa haldið fram­hjá fyrstu eigin­konu sinni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Emhoff er sagður hafa greint Harris frá framhjáhaldinu áður en þau gengu í hjónaband.
Emhoff er sagður hafa greint Harris frá framhjáhaldinu áður en þau gengu í hjónaband. AP/Susan Walsh

Doug Emhoff, eiginmaður Kamölu Harris varaforseta Bandaríkjanna og forsetaefnis Demókrataflokksins, játar í yfirlýsingu til CNN að hafa haldið framhjá fyrstu eiginkonu sinni.

Málið komst upp um síðustu helgi en það var Daily Mail sem greindi frá framhjáhaldinu.

Samkvæmt frétt blaðsins átti Emhoff í ástarsambandi við kennara dóttur sinnar, sem er sagt hafa leitt til þess að hjónaband hans og Kerstin Mackin endaði árið 2009. Daily Mail segir framhjáhaldið hafa leitt til þungunar en að konan hafi kosið að eiga ekki barnið.

„Á meðan fyrsta hjónabandi mínu stóð gengum við Kerstin í gegnum erfiðleika vegna gjörða minna. Ég axlaði ábyrgð og síðan þá höfum við unnið okkur í gegnum málin sem fjölskylda og erum sterkari fyrir vikið,“ segir Emhoff í yfirlýsingu sinni.

CNN hefur eftir heimildarmanni að Emhoff hafi greint Harris frá framhjáhaldinu áður en þau gengu í hjónaband árið 2014 og þá hafi Joe Biden Bandaríkjaforseti og teymið hans verið upplýst um það áður en hann valdi Harris sem varaforsetaefni sitt fyrir forsetakosningarnar 2020.

Kerstin, sem ber enn eftirnafnið Emhoff, hefur einnig sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún segir meðal annars:

„Við Doug ákváðum að binda enda á hjónaband okkar af ýmsum ástæðum, fyrir mörgum árum. Hann er frábær faðir barnanna okkar, heldur áfram að vera góður vinur minn og ég er mjög stolt af þeirri hlýju og stuðningsríku fjölskyldu sem Doug, Kamala og ég höfum myndað saman.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×