Brottvísuninni var mótmælt á Keflavíkurflugvelli en hælisleitendur sem dvelja enn hér á landi segja ástandið í heimalandinu aldrei hafa verið verra.
Í síðustu viku lýsti forseti landsins Nicolas Maduro yfir sigri í forsetakosningum en margir telja niðurstöður og framkvæmd kosninganna ólögmæta. Fá ríki hafa viðurkennt sigur Maduros, þar á meðal Rússland, Kína og Bólivía. Nokkur önnur ríki hafa lýst því yfir að andstæðingur Maduros í kosningunum, Edmundo Gonzalez, sé réttmætur sigurvegari, þar á meðal Bandaríkin og Argentína.
Óöld hefur ríkt í landinu eftir kosningar og mótmælt hefur verið víða um land. Á annað þúsund hafa verið handteknir og tæplega þrjátíu hafa látist í mótmælunum. Útlendingastofnun segist meta stöðuna í landinu stöðugt en að almennar aðstæður í landinu leiði ekki til þess að allir sem þaðan koma eigi rétt á alþjóðlegri vernd á Íslandi.
Bryndís Haraldsdóttir, formaður Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, segist treysta mati Útlendingayfirvalda.
„Þessi málaflokkur er þannig að það þarf að leggja mjög reglulega mat á stöðu mála. Ég treysti Útlendingastofnun og ég veit að stofnunin horfir til þess sem nágrannaríkin okkar eru að gera og horfir á mat alþjóðastofnana og annarra ríkja á ástandinu. Þannig já, ég treysti þeim fullkomlega,“ segir Bryndís.
Einu sinni á ári fundar dómsmálaráðherra með nefndinni um útlendingamálin. Bryndís gerir ráð fyrir að sá fundur verði núna í haust.
„Því miður þá búa ekki allir við frjálsar og öruggar kosningar og það er svo sannarlega þannig í Venesúela núna. En það er ekki endilega þannig að öll þau ríki sem búa ekki við lýðræði og frjálsar og öruggar kosningar geti fengið alþjóðlega vernd annarsstaðar,“ segir Bryndís.
„En ástandið í Venesúela er svo sannarlega ekki gott og við vonum auðvitað að þar lægi öldurnar og fólkið þar muni búa við öryggi til framtíðar.“