Neytendur

Verðstríð að hefjast á mat­vöru­markaði

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Gréta María segir Prís ætla að hrista upp í fákeppnismarkaði.
Gréta María segir Prís ætla að hrista upp í fákeppnismarkaði. vísir/ívar fannar

Töluvert rými er fyrir samkeppni á matvörumarkaði, að mati sérfræðings hjá verðlagseftirliti ASÍ. Framkvæmdastjóri nýrrar lágvöruverðsverslunar segir markmiðið að hrista upp í fákeppnismarkaði.

Verslunin Prís er um þessar mundir að undirbúa innreið á markaðinn og stefnt er að því að opna dyrnar síðar í mánuðinum. Framkvæmdastjórinn segir markmiðið skýrt: að lækka matvöruverð á landinu, meðal annars með því að einblína á innfluttar vörur.

„Ég held að það finni það allir á eigin skinni að matvöruverð hefur hækkað gríðarlega mikið og í þannig umhverfi, skapast að sjálfsögðu aðstæður fyrir nýja aðila til að koma inn á markað og brjóta upp mynstur sem hefur verið í fákeppni,“ segir Gréta María Grétarsdóttir framkvæmdastjóri Príss.

Hún segist hafa verið beðin um að rugga ekki bátnum hjá stóru aðilunum og vakið athygli á því að vegna afsláttar sem stærri matvörukeðjur fái hjá byrgjum sé jafnvel ódýrara að versla við stóru keðjurnar en byrgjana sjálfa.

„Þá er eitthvað rangt gefið í kerfinu. Af hverju það er er erfitt að svara. Er það út af því að menn vilja ekki fá fleiri aðila inn á markaðinn sem rugga bátnum? Eða er það vegna þess að mönnum líður vel í þessari fákeppni? Eða eru hræddir? Við vitum það ekki, en við höfum allavega vakið athygli á þessu, að þetta sé ekki eðlilegt.“

Auður Alfa Ólafsdóttir.vísir/ívar fannar

Auður Alfa hjá verðlagseftirliti ASÍ tekur undir það að óeðlileg staða hafi myndast á matvörumarkaði.

„Við sjáum auðvitað að Festi og Hagar eru með sextíu prósent hlutdeild á markaði ef við bætum Samkaupum þá erum við komin í áttatíu prósent. Þetta eru ekki margir aðilar.“

Um klassískt dæmi fákeppni sé að ræða þar sem fyrirtækin keppa ekki í verði heldur þjónustustigi og tæknilausnum.

„Hlutir sem að kosta töluverða peninga,“ segir Auður. „Þannig ef það kemur meiri samkeppni inn á markaðinn, þá ætti það að þrýsta á hagræðingu, sem ætti þá að leiða til lægra matvöruverðs.“

Munum við sjá verðlækkanir?

„Ekki nokkur spurning,“ segir Gréta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×