Innlent

Milla hætt hjá Willum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Milla Ósk Magnúsdóttir hafði sinnt starfi aðstoðarmanns heilbrigðisráðherra frá árinu 2021.
Milla Ósk Magnúsdóttir hafði sinnt starfi aðstoðarmanns heilbrigðisráðherra frá árinu 2021. Stjórnarráðið

Milla Ósk Magnúsdóttir hefur látið af störfum sem aðstoðarmaður Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra. Hún hafði verið aðstoðarmaður ráðherra frá árinu 2021.

Heilbrigðisráðherra hefur ráðið Sonju Lind Estrajher Eyglóardóttur sem nýjan aðstoðarmann og mun hún hefja störf í vikunni.

Frá þessu er greint á vef stjórnarráðsins. Þar segir að Sonja sé með meistara- og BA-próf í lögfræðið frá Háskólanum í Reykjavík og að hún hafi fengið viðurkenningu fyrir bestan námsárangur við útskrift úr BA-námi. Áður hafði Sonja lokið námi í grafískri miðlun frá Iðnskólanum í Reykjavík.

Sonja Lind Estrajher Eyglóardóttir mun hefja störf í vikunni.Stjórnarráðið

Síðustu fjögur ár hefur Sonja starfað sem starfsmaður og verkefnastjóri þingflokss Framsóknar á Alþingi og segir í tilkynningunni að hún hafi þar komið að gerð fjölda þingmannamála tengdum heilbrigðis- og lýðheilsumálum ásamt því að aðstoða þingmenn við vinnslu mála fyrir nefndum Alþingis.

„Sonja hefur gegnt trúnaðar- og félagsstörfum í gegnum tíðina. Hún var sambandsstjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar 2021-2023 og ritari stjórnar Félags starfsmanna Alþingis frá árinu 2022. Þá hefur Sonja setið í ýmsum nefndum og ráðum fyrir Borgarbyggð síðustu ár, meðal annars Velferðarnefnd og Barnaverndarnefnd. Auk þess sem hún hefur verið varamaður í stjórn Póstsins frá árinu 2020,“ segir í tilkynningunni.

Sonja er fædd á Ísafirði árið 1981, ólst upp í Borgarnesi og er búsett þar í dag. Maki Sonju er Pavle Estrajher umhverfis- og náttúrufræðingur og eiga þau þrjú börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×