Enski boltinn

Pal­mer nú samnings­bundinn Chelsea næstu níu árin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
„Þangað til að skrifa undir?“
„Þangað til að skrifa undir?“ James Gill/Getty Images

Cole Palmer var ein af stjörnum ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð þegar hann var ljósið í myrkrinu hjá Chelsea. Lundúnafélagið hefur nú verðlaunað Palmer með því að framlengja samning hans til tveggja ára ásamt því að gefa honum veglega launahækkun.

Chelsea keypti Palmer frá Manchester City síðasta sumar á rúmar 40 milljónir sterlingspunda, rétt rúmlega sjö milljarða íslenskra króna. Þessi 22 ára gamli sóknarþenkjandi miðjumaður átti í kjölfarið ótrúlegt tímabil og var einn af fáum jákvæðum punktum á annars slöku tímabili Chelsea.

Alls spilaði hann 45 leiki fyrir félagið, skoraði 25 mörk og gaf 15 stoðsendingar. Til að þakka honum fyrir vel unnin störf ákvað Chelsea að bjóða leikmanninum tveggja ára framlengingu á samningi sínum sem gilti þó til ársins 2031.

Um var að ræða mikið bættan samning og því var Palmer ekki lengi að samþykkja, hann er nú samningsbundinn Chelsea til ársins 2033.

Chelsea hefur leik í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn kemur þegar Englandsmeistarar Man City mæta í heimsókn á Brúnna í Lundúnum. Það verður áhugavert að sjá hvort gott gengi Palmer haldi áfram og hvort hann stríði sínu fyrrum félagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×