Fótbolti

Hákon Arnar og fé­lagar slógu læri­sveina Mourin­ho úr Meistara­deild Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hákon Arnar í leik kvöldsins.
Hákon Arnar í leik kvöldsins. Ahmad Mora/Getty Images

Landsliðsmaðurinn Hákon Arnar Haraldsson var í byrjunarliði Lille þegar liðið sótti José Mourinho og lærisveina hans í Fenerbahçe út í forkeppni Meistaradeildar karla í knattspyrnu. Þá var Elías Rafn Ólafsson í marki Midtjylland þegar liðið sló Ferencvárosi frá Ungverjalandi úr leik.

Hákon Arnar og félagar voru marki yfir eftir fyrri leik liðanna í Frakklandi og lengi vel stefndi í að liðið myndi tryggja sig áfram í venjulegum leiktíma. Hákon Arnar nældi sér í gult spjald undir lok venjulegs leiktíma en þegar komið var eina mínútu inn í uppbótartíma leiksins skoruðu heimamenn mark sem þýddi að leikurinn fór í framlengingu.

Markið var heldur klaufalegt en um var að ræða sjálfsmark Bafode Diakite eftir að gamla brýnið Edin Džeko böðlaði boltanum í Diakite og þaðan í netið. Staðan því 1-0 að loknum venjulegum leiktíma og því var gripið til framlengingar.

Hákon Arnar var ekinn af velli á 98. mínútu en tíu mínútum síðar urðu gestirnir fyrir áfalli þegar Aissa Mandi var sendur í bað eftir gróft brot. Dramatíkinni var þó ekki lokið þar sem Lille fékk vítaspyrnu undir lok framlengingarinnar.

Jonathan David skoraði úr spyrnunni og tryggði Lille ótrúlegan sigur og Lille því komið í umspil um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið mætir annað hvort Slavía Prag frá Tékklandi eða Union Saint-Gilloise frá Belgíu.

Elías Rafn og félagar í Midtjylland eru einnig komnir í umspil eftir jafntefli í Ungverjalandi þar sem íslenski markvörðurinn fór hamförum. Midtjylland mætir Slovan Bratislava í umspili um sæti í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×