Enski boltinn

Shaw meiddur enn á ný

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Luke Shaw eftir sigur Englands á Sviss í 8-liða úrslitum Evrópumóts karla í knattspyrnu sem fram fór í Þýskalandi í sumar.
Luke Shaw eftir sigur Englands á Sviss í 8-liða úrslitum Evrópumóts karla í knattspyrnu sem fram fór í Þýskalandi í sumar. Matt McNulty/Getty Images

Vinstri bakvörðurinn Luke Shaw mun missa af upphafi ensku úrvalsdeildarinnar þar sem hann er meiddur á kálfa. Hann spilaði aðeins 15 leiki fyrir Manchester United á síðustu leiktíð en tókst samt sem áður að taka þátt á EM í sumar.

Man United gaf út yfirlýsingu þess efnis fyrr í kvöld þar sem segir að Shaw sé meiddur á kálfa og verði ekki klár fyrr en eftir landsleikjahléið í september.

Shaw var meira og minna meiddur allt síðasta tímabil. Hann spilaði síðast í febrúar en var samt valinn í landsliðshóp Englands á EM sem fram fór í sumar. Gareth Southgate hafði þá trú að Shaw gæti orðið leikfær í útsláttarkeppninni, sem hann svo var.

Nú er hins vegar ljóst að það verður enn lengra í að þessi 29 ára gamli bakvörður klæðist treyju Man United þar sem hann er meiddur enn á ný.

Meiðslin eru þau 26. á ferli hans hjá Man United en hann fótbrotnaði illa á sínu fyrsta tímabili hjá Man Utd og hefur átt erfitt með að halda sér heilum síðan þá.

Man United mætir Fulham í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á föstudaginn kemur og verður forvitnilegt að sjá hver leysir vinstri bakvörðinn þar sem Tyrell Malacia, hinn vinstri bakvörður liðsins, er einnig meiddur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×