Fótbolti

Eyði­lagði sumar­fríið fyrir Ancelotti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti á æfingu Real Madrid fyrir leikinn í kvöld.
Carlo Ancelotti á æfingu Real Madrid fyrir leikinn í kvöld. Getty/Robbie Jay Barratt

Carlo Ancelotti þarf auðvitað að velja byrjunarliðið hjá Real Madrid og það er ekki auðvelt verk þegar þú ert með troðfullt lið af hæfileikaríkum leikmönnum.

Fyrsti mótsleikur Real Madrid er í kvöld á móti ítalska félaginu Atalanta en hann er í Ofurbikar UEFA. Þar mætast sigurvegarar Meistaradeildarinnar og Evrópudeildarinnar frá síðasta tímabili.

Þetta verður fyrsta alvöru byrjunarlið Ancelotti á leiktíðinni og það fyrsta síðan að franska súperstjarnan Kylian Mbappé bættist við leikmannahópinn.

Það er nóg af leikmönnum til að spila með Kylian Mbappé og líklega bara pláss fyrir tvo þeirra.

Vinícius Júnior, Rodrygo, Endrick, Arda Güler og Brahim Díaz koma allir til greina en þá erum við bara að tala um framlínuna.

Liðið er líka mjög vel statt þegar kemur að miðjumönnunum þar sem Jude Bellingham, Federico Valverde, Luka Modrić, Aurélien Tchouaméni og Dani Ceballos eru klárir í slaginn. Það væri líka vanalega Eduardo Camavinga en hann meiddist á æfingu í gær.

Ancelotti grínaðist með höfuðverkinn sinn á blaðamannafundi fyrir leikinn. Það er ekki bara að velja ellefu fyrstu leikmenn heldur einnig að ákveða það hver spili hvar.

„Ég er að glíma við stórt vandamál. Ég eyddi öllu sumrinu í að reyna að finna út hverjir ættu að byrja. Þetta eyðilagði sumarfríið mitt,“ sagði Ancelotti en auðvitað meira í gríni en alvöru.

Leikur Real Madrid og Atalanta verður sýndur beint í kvöld á Stöð 2 Sport 2 og hefst útsendingin klukkan 18.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×