Fótbolti

Pabbi Yamals stunginn á bíla­stæði

Sindri Sverrisson skrifar
Lamine Yamal glaðbeittur með pabba sínum eftir að hafa orðið Evrópumeistari í sumar.
Lamine Yamal glaðbeittur með pabba sínum eftir að hafa orðið Evrópumeistari í sumar. Getty/Jean Catuffe

Pabbi 17 ára fótboltastjörnunnar Lamine Yamal var stunginn með hníf, oftar en einu sinni, í átökum á bílastæði í bænum Mataró á Spáni í gærkvöld.

Frá þessu greindi spænska blaðið La Vanguardia fyrst og í kjölfarið sagði El Mundo frá því að þrír menn hefðu verið handteknir vegna árásarinnar.

Yamal sló í gegn með Barcelona á síðustu leiktíð og svo með Spáni þegar hann varð Evrópumeistari í Þýskalandi í sumar, sem lykilmaður þrátt fyrir ungan aldur.

Pabbi hans, Mounir Nasraoui, virðist samkvæmt spænskum miðlum hafa lent í átökum í gærkvöld með fyrrgreindum afleiðingum.

Hann var fluttur á Can Ruti spítalann í Badalona, í nágrenni Barcelona, á meðan að lögreglan tók skýrslu af vitnum. Samkvæmt grein Marca þá er Nasraoui ekki í lífshættu en stungusárin fleiri en eitt.

Nasraoui býr í Mataró, í Rocafonda-hverfinu, og bendir Marca á að þegar Yamal fagni mörkum þá geri hann oft merki sem tákni 304. Það standi fyrir póstnúmerið í Rocafonda sem sé 08304, og þar hafi hann alist upp.

Nýtt keppnistímabil Yamals með Barcelona hefst um helgina en liðið sækir Valencia heim á laugardaginn í fyrstu umferð spænsku deildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×