Neytendur

Temu kaupin geti hæg­lega orðið að fíkn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Netverslanir líkt og Temu og Shein hafa komið eins og stormsveipur inn á íslenskan markað á undanförnum mánuðum.
Netverslanir líkt og Temu og Shein hafa komið eins og stormsveipur inn á íslenskan markað á undanförnum mánuðum.

Sálfræðingur segir nýjar sölusíður líkt og Temu og Shein sem nýlega hafa rutt sér til rúms hér á landi hæglega geta orðið til þess að valda kaupfíkn. Síðurnar herji á notendur sem upplifi vellíðan við að versla sem mest á síðunum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í Bítinu í Bylgjunni í morgun. Katrín Kristjánsdóttir sálfræðingur hjá Lífi og Sál ræddi hinar nýju sölusíður og hinn svokallaða Temu glampa í augum margra Íslendinga sem hafa verið duglegir að versla á síðunni.

Undanfarnar vikur og mánuði hafa auglýsingar kínversku síðunnar farið mikinn á samfélagsmiðlum Íslendinga. Þar er hið ótrúlegasta dót auglýst, allt frá orkusteinum til skipulagshirslna og bakpoka sem rúma skó og fótbolta, svo fátt eitt sé nefnt.

Þurfum ekki allt þetta dót

Katrín segir síðurnar bjóða upp á allskyns hluti sem flestir vissu ekki að þeir þyrftu á að halda. Um leið og þeir sjái hlutina þá upplifi þeir hinsvegar að þeir þurfi svo sannarlega að kaupa þá. Um svokallaða gerviþörf sé að ræða.

„Það er þessi blessaða hjarðhegðun hjá okkur. Við erum fá og það er auðvelt að láta orðið berast og um leið og það eru nokkrir þá eru allir að gera þetta, það eru allir að panta á netinu og það eru allir að skoða þetta.“

Sannleikurinn sé hinsvegar sá að við þurfum ekki allt þetta dót. Katrín rifjar upp sambærileg æði líkt og þegar Costco kom til landsins og þegar það var nýtt og spennandi að fara í fríhöfnina.

Fáum umbun

Katrín tekur fram að hún sé ekki fíknisérfræðingur. Það sé hinsvegar auðvelt að sjá fyrir sér að þetta geti auðveldlega orðið að ákveðinni fíkn hjá fólki.

„Það er rosa auðvelt að sitja upp í sófa og það er ekki búið að vera neitt rosalega mikið af sólríkum dögum, margir sem hafa þurft að stytta sér stundir heima og þá er rosa auðvelt að opna eitthvað af þessum síðum og setja í körfu og svo jafnvel panta,“ segir Katrín.

Hún segir hugrænu áhrifin sem ferlið hefur stóran hluta af mannlegu eðli, að upplifa það að fá umbun strax með því að versla sér á netinu. „Þetta er alveg eins fíkn og áfengisfíkn eða matarfíkn eða hvaða önnur fíkn og þetta er náttúrulega fyrir framan mann.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×