Innlent

Helga Vala til Lög­fræði­stofu Reykja­víkur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Helga Vala sagði skilið við Samfylkinguna, sótti sér lögmannsréttindi og er komin til starfa á lögfræðistofu.
Helga Vala sagði skilið við Samfylkinguna, sótti sér lögmannsréttindi og er komin til starfa á lögfræðistofu. LR

Helga Vala Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður og lögmaður, hefur bæst við hóp lögmanna Lögfræðistofu Reykjavíkur. Helga Vala útskrifaðist með ML gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2011 og öðlaðist sama ár málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi og síðar fyrir Landsrétti.

Helga Vala stofnaði ásamt öðrum lögmönnum Völvu lögmenn árið 2011 og starfaði þar uns hún tók sæti á Alþingi árið 2017. Hún sat á þingi fyrir Samfylkinguna en kaus að hverfa aftur til lögmannsstarfa haustið 2023 á Völvu lögmönnum. 

Á Alþingi gegndi hún ýmsum trúnaðarstörfum, var formaður þingflokks, formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og Velferðarnefndar auk þess að eiga sæti í umhverfis- og samgöngunefnd, allsherjar- og menntamálanefnd og Íslandsdeild ÖSE, Öryggis og samvinnustofnunar Evrópu, svo dæmi séu tekin.

Helga Vala hefur fjölbreytta reynslu úr lögmennsku en hennar helstu starfssvið eru stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttur, fjölskyldu og barnaréttur, sakamála- og vinnuréttur, málefni útlendinga auk almennrar lögfræðiráðgjafar og málflutnings.

Grétar Dór Sigurðsson, lögmaður og stjórnarformaður LR segir mjög ánægjulegt að fá Helgu Völu inn í öflugan hóp lögmanna LR. Hún búi yfir mikilli og fjölbreyttri reynslu sem muni nýtast viðskiptavinum stofunnar vel en styrkur stofunnar liggi einmitt í mikilli fagþekkingu og áratugareynslu á ólíkum sviðum lögfræðinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×