Helga Vala stofnaði ásamt öðrum lögmönnum Völvu lögmenn árið 2011 og starfaði þar uns hún tók sæti á Alþingi árið 2017. Hún sat á þingi fyrir Samfylkinguna en kaus að hverfa aftur til lögmannsstarfa haustið 2023 á Völvu lögmönnum. Á heimasíðu Völvu er Helga Vala skráð eini starfsmaðurinn.
Á Alþingi gegndi hún ýmsum trúnaðarstörfum, var formaður þingflokks, formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og Velferðarnefndar auk þess að eiga sæti í umhverfis- og samgöngunefnd, allsherjar- og menntamálanefnd og Íslandsdeild ÖSE, Öryggis og samvinnustofnunar Evrópu, svo dæmi séu tekin.
Helga Vala hefur fjölbreytta reynslu úr lögmennsku en hennar helstu starfssvið eru stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttur, fjölskyldu og barnaréttur, sakamála- og vinnuréttur, málefni útlendinga auk almennrar lögfræðiráðgjafar og málflutnings.
Grétar Dór Sigurðsson, lögmaður og stjórnarformaður LR segir mjög ánægjulegt að fá Helgu Völu inn í öflugan hóp lögmanna LR. Hún búi yfir mikilli og fjölbreyttri reynslu sem muni nýtast viðskiptavinum stofunnar vel en styrkur stofunnar liggi einmitt í mikilli fagþekkingu og áratugareynslu á ólíkum sviðum lögfræðinnar.