Fótbolti

Læri­sveinar Mourin­ho hentu frá sér tveggja marka for­ystu og ráðist var að for­setanum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
José Mourinho á hliðarlínunni í leiknum sem um er ræðir.
José Mourinho á hliðarlínunni í leiknum sem um er ræðir. Seskim Photo/Getty Images

Fenerbahçe gerði 2-2 jafntefli við Göztepe á útivelli í tyrknesku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í gær eftir að komast 2-0 yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Þá var Ali Koc, forseta Fenerbahçe, hrint til jarðar og flöskum kastað í hann eftir að hann óð inn á völlinn.

Ellismellurinn Edin Džeko kom gestunum í Fenerbahçe yfir með marki úr vítaspyrnu þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik. Það hafði greinilega nóg gengið á í fyrri hálfleik þar sem uppbótartíminn var lengri en vanalega, til að mynda höfðu heimamenn skorað mark sem var dæmt af eftir að myndbandsdómari leiksins fór betur yfir það.

Þegar sjö mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma tvöfaldaði Youssef En Nesyri forystu gestanna og José Mourinho fór skælbrosandi inn í hálfleikspásuna. Í síðari hálfleik snerist dæmið við, heimamenn minnkuðu muninn um miðbik hálfleiksins og jöfnuðu svo metin þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Eftir leik sauð hins vegar allt upp úr í kjölfar þess að forseti gestanna, Ali Koc, strunsaði út á völl. Honum var hrint til jarðar og þá flaug flaska í andlit hans.

Ekki er vitað hvort flöskunni hafi verið beint sérstaklega að honum eða hvort áhorfendur hafi bara verið að láta pirring sinn í ljós með því að fleygja hinum ýmsu hlutum niður á keppnisvöllinn.

Fenerbahçe er með fjögur stig að loknum tveimur leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×