Innlent

Þurfa að leita annað í sund

Bjarki Sigurðsson skrifar
Árbæjarlaug verður lokuð vegna heitavatnsleysisins.
Árbæjarlaug verður lokuð vegna heitavatnsleysisins. Reykjavíkurborg

Þónokkrum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu verður lokað í vikunni vegna framkvæmda Veitna. Heitavatnslaust verður víða á höfuðborgarsvæðinu næstu daga.

Framkvæmdirnar hefjast klukkan tíu í kvöld til hádegis á miðvikudag. Unnið er að því að tvöfalda suðuræð sem flytur vatn frá Reynisvatni og á stóran hluta höfuðborgarsvæðisins. 

Vegna framkvæmdanna verður Breiðholtslaug og Árbæjarlaug lokað. Reyndar hefur Árbæjarlaug verið lokuð síðan á föstudag en Breiðholtslaug verður lokuð næstu tvo daga. Báðar laugar verða opnaðar á ný 22. ágúst. 

Allar sundlaugar í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi verða einnig lokaðar á meðan framkvæmdirnar standa yfir. 

Það eru ekki bara vinsælar sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu sem glíma við heitavatnsskort sem loka dyrum sínum næstu daga. Lokað er í Vesturbæjarlauginni alla vikuna vegna árlegs viðhalds. Hún verður opnuð á ný 24. ágúst. 

Sundþyrstir geta því leitað í aðrar laugar höfuðborgarsvæðisins sem eru Dalslaug, Grafarvogslaug, Klébergslaug, Laugardalslaug og Sundhöll Reykjavíkur. 

Þeir sem vilja nýta tækifærið og fara í ferðalag geta kíkt í Reykjanesbæ sem býður íbúum höfuðborgarsvæðisins sem glíma við heitavatnsleysi frítt í sund. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×