Bjarki Steinn hefur ekki leikið með Venezia í upphafi leiktíðar á Ítalíu vegna kviðslita sem hafa plagað hann. Fótbolti.net greinir frá því að hann sé á leið í aðgerð vegna þessa í næstu viku.
Hann geti því ekki tekið þátt í landsleikkjunum við Svartfjallaland og Tyrkland í Þjóðadeildinni í byrjun september. Hann vonist til þess að geta tekið þátt í landsleikjum Íslands í október.
Bjarki Steinn var öflugur með Venezia á síðustu leiktíð þegar félagið vann sér sæti í Seríu A. Hann var valinn í landsliðið í júní og átti stórleik er Ísland vann 1-0 sigur á Englandi á Wembley.
Åge Hareide tilkynnir landsliðshóp Íslands fyrir leikina við Svartfjalland og Tyrkland á miðvikudaginn næsta.
Landsleikirnir við Svartfjallaland og Tyrkland verða sýndir á Stöð 2 Sport, sem og allir leikir Íslands í Þjóðadeildinni.