Fótbolti

Gala­tasaray beið af­hroð geng Young Boys

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Icardi var lengi vel einn eftirsóttasti framherji Evrópu en tókst hins vegar ekki að skora í kvöld.
Icardi var lengi vel einn eftirsóttasti framherji Evrópu en tókst hins vegar ekki að skora í kvöld. Hakan Akgun/Getty Images

Rándýrt lið Galatasaray mun ekki spila í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu eftir tap gegn Young Boys frá Sviss í kvöld. Heimamenn í Galatasaray þurftu að vinna leikinn með tveggja marka mun en enduðu á að tapa 0-1.

Svisslendingarnir unnu fyrri leik liðanna 3-2 og því þurftu heimamenn í Galatasaray heldur betur að spýta í lófana fyrir leik kvöldsins. Annað kom á daginn en heimaliðið var hvorki fugl né fiskur. Gestirnir skoruðu eftir rúman hálftíma en markið var dæmt af vegna rangstöðu, staðan því markalaus í hálfleik.

Það fór svo allt í bál og brand eftir að Alan Virginius skoraði eina mark leiksins á 87. mínútu.

Örskömmu síðar var hinn reyndi Fernando Muslera, markvörður heimaliðsins, rekinn af velli fyrir óíþróttamannslega hegðun. Sigurinn var gestanna sem og sæti í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í ár. Young Boys vann einvígið samtals 4-2 og sætið svo sannarlega skilið.

Þetta er mikið högg fyrir Galatasaray sem eins og áður sagði hefur eytt gríðarlegum fjármunum í lið sitt. Meðal leikmanna í liðinu eru framherjarnir Mauro Icardi, Michy Batshuayi og Dries Mertens.

Þá var Lucas Torrera á miðri miðjunni og Hakim Ziyech á hægri vængnum. Að endingu má nefna Danina tvo sem kostuðu þó nokkrar milljónir evra; Victor Nelson og Elias Jelert.

Ásamt Young Boys eru Salzburg frá Austurríki og Slavia Prag komin í deildarkeppni Meistaradeildarinnar á kostnaði Dynamo Kiev og Malmö. Tapliðin þrjú fara í deildarkeppni Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×