Enski boltinn

Sala Bournemouth fjár­magnar kaupin á Chiesa

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tímaspursmál er hvenær Chiesa verður staðfestur sem leikmaður Liverpool.
Tímaspursmál er hvenær Chiesa verður staðfestur sem leikmaður Liverpool. Getty

Allt stefnir í að Ítalinn Federico Chiesa verði leikmaður Liverpool á Englandi á næstu dögum, ef ekki hreinlega verður gengið frá skiptum hans í dag. Liverpool fær Ítalann á tombóluverði sem fjármagnast að stórum hluta utan frá.

Samkvæmt fregnum frá Englandi og Ítalíu er Chiesa mættur til Liverpool-borgar til að ganga frá skiptunum. Chiesa var á meðal heitari bita á markaðnum fyrir örfáum árum og Juventus borgaði Fiorentina um 50 milljónir evra fyrir leikmanninn. Hann var á láni í Torínó frá 2020 til 2022 þegar gengið var frá endanlegum skiptum hans frá Flórens.

Meiðsli hafa plagað Chiesa undanfarin ár og markaðsvirðið lækkað allverulega. Fregnir ytra herma að Liverpool greiði Juventus aðeins um 11 milljónir punda fyrir Chiesa og hann fái undir 100 þúsund pund í vikulaun í Bítlaborginni.

Liverpool fjármagnar þau kaup að stóru leyti með fé sem liðið fékk frá Bournemouth fyrr í sumar. Dominic Solanke var seldur frá Liverpool til Bournemouth árið 2019 og átti Liverpool rétt á 20 prósentum af hagnaði Bournemouth af næstu sölu.

Tottenham Hotspur keypti Solanke af Bournemouth í sumar á 60 milljónir punda og fóru 7,6 milljónir af því til Liverpool. Liverpool fer því langt með að fjármagna kaupin á Chiesa með fé sem fékkst fyrir leikmann sem hefur ekki leikið fyrir félagið í rúm fimm ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×