Íslenski boltinn

„Ekki oft sem maður skorar“

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Álfhildur Rósa skoraði mark Þróttar gegn Íslandsmeisturum Vals.
Álfhildur Rósa skoraði mark Þróttar gegn Íslandsmeisturum Vals. Vísir/Hulda Margrét

„Ég held að við getum ekki verið annað en sáttar með þessi úrslit,“ sagði Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði og markaskorari Þróttar, í 1-1 jafntefli liðsins gegn Val í Bestu deild kvenna í fótbolta í kvöld.

„Þær lágu svakalega á okkur og áttu mikið af færum, við áttum ekki mikið af færum, en mér fannst varnarleikurinn mjög góður og við náðum að bjarga okkur mjög oft.“

Mikill vindur var á Hlíðarenda í kvöld og nýttu gestirnir sér vindinn vel í jöfnunarmarki sínu. Sæunn Björnsdóttir tók þá góða hornspyrnu og snéri boltann að marki þar sem Álfhildur Rósa stóð og kom boltanum í netið af stuttu færi. Aðspurð hvort aðstæður hafi einmitt haft áhrif í jöfnunarmarkinu, þá svaraði Álfhildur Rósa því játandi.

„Já algjörlega. Það er ekki oft sem maður skorar þannig að það var geggjað að ná inn marki. Það var ekkert sem við töluðum sérstaklega um, en auðvitað lásum við það og Sæunn er með frábærar spyrnur inn í. Við náðum að útfæra þetta mjög vel.“

Valskonur þjörmuðu hressilega að marki Þróttar eftir jöfnunarmarkið.

„Þetta var gríðarlega erfitt og þær sóttu svakalega á okkur og auðvitað er erfitt að vera einum manni færri og þær líka búnar að bæta í fram á við. Ég er bara feginn að við náðum að klára þetta.“

Sæunn Björnsdóttir fékk sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Hvað fannst Álfhildi Rósu um þann dóm?

„Ég var ósammála þessu. Mér fannst þetta pínu soft en dómarinn sá þetta kannski betur en ég. Við bara treystum honum fyrir þessu,“ sagði Álfhildur Rósa að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×