Innlent

Mikil brenni­steins­mengun í Vogum

Kjartan Kjartansson skrifar
Brennisteinsdíoxíð úr gosmekkinum leggur yfir Voga en sömuleiðis reykur frá gróðureldum sem kviknuðu út frá eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni.
Brennisteinsdíoxíð úr gosmekkinum leggur yfir Voga en sömuleiðis reykur frá gróðureldum sem kviknuðu út frá eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni. Vísir/Vilhelm

Gildi brennisteinsdíoxíðs og svifryks hefur mælst vel yfir heilbrigðismörkum í Vogum á Vatnsleysuströnd í allan dag. Mengun stafar bæði af gosmóðu sem leggur yfir bæinn og reyks frá gróðureldum sem brenna við eldgosið.

Þriggja klukkustunda meðaltal brennisteinsdíoxíð hefur farið upp í þúsund míkrógrömm á rúmmetra í Vogum í dag samkvæmt Facebook-færslu sem Veðurstofa Íslands birti nú um klukkan tíu í kvöld.

Línurit sem Veðurstofan birti í kvöld sem sýnir hvernig styrkur mjög fíns svifryks í Vogum jókst frá fimmtudeginum 29. ágúst 2024 til 30. ágúst 2024.Veðurstofan

Þegar svo há gildi mælist sé fólki ráðlagt að loka gluggum og halda sig innandyra nema í brýnustu erindagjörðum. Loftmengun frá eldgosinu geti valdið sleni, höfuðverk, ertingu í augum og hálsi auk vægra flensueinkenna.

Loftmengunin á enn að berast í norðurátt í ríkjandi sunnanátt næstu daga. Hins vegar er spáð töluverðri úrkomu á suðvesturhorninu sem getur dregið úr menguninni, sérstaklega svifryksmengun frá gróðureldunum á gosstöðvunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×