Fótbolti

Orri Steinn fær að sjálf­sögðu níuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson er kominn í spænska boltann og tekur nú stórt skref á sínum ferli.
Orri Steinn Óskarsson er kominn í spænska boltann og tekur nú stórt skref á sínum ferli. Getty/Ulrik Pedersen

Spænska félagið Real Sociedad keypti í gær íslenska landsliðsframherjann Orra Stein Óskarsson frá FC Kaupmannahöfn.

Orri hefur verið hjá FCK í fjögur ár og félagið selur hann nú á tuttugu milljónir evra eða þrjá milljarða íslenskra króna.

Kaupmannahafnarfélagið hefur aldrei selt leikmann fyrir hærri upphæð.

„Ég bjóst ekki við því að ég myndi yfirgefa FCK á þessum tímapunkti. Ég skrifaði nýverið undir nýjan samning og bjóst því ekki við að vera á förum. En ég get ekki sagt nei við því að verða aðalframherji í jafn góðu liði og Real Sociedad í jafn sterkri deild og La Liga,“ sagði Orri Steinn í viðtali við vefsíðu FCK.

Hann fær líka níuna hjá Real Sociedad.

Spænska félagið sýndi myndband af Orra fá níuna í hendurnar.

Sá sem var í níunni hjá Real Sociedad í fyrra var Carlos Fernández. Hann var lánaður til Cádiz út tímabilið í gær. Fernández skoraði bara tvö mörk í tíu deildarleikjum á síðustu leiktðið.

Orri Steinn er búinn að skora fimm mörk í fyrstu sex leikjum dönsku úrvalsdeildarinnar og heldur vonandi uppteknum hætti í Baskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×